Telur félagsfólk Eflingar vilja SGS-samninginn

Halldór Benjamín Þorbergsson fundar með sínu félagsfólki í dag um …
Halldór Benjamín Þorbergsson fundar með sínu félagsfólki í dag um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höldum lokaðan félagsfund í dag þar sem ég mun fara yfir miðlunartillöguna, aðdraganda hennar, næstu skref og stöðuna í þessum málum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is og vísar þar til miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og SA.

„Við erum núna á næstu klukkutímum að skila inn okkar atkvæðaskrá sem gerir okkar fyrirtækjum kleift að greiða atkvæði um miðlunartillöguna, það er að segja fyrirtækjum á starfssvæði Eflingar sem eru með Eflingarfólk í vinnu,“ heldur hann áfram og kveðst gera ráð fyrir að miðlunartillagan verði samþykkt, hvort tveggja á vettvangi SA og Eflingar.

Munu skila umbeðnum lögboðnum gögnum

„Ég er þeirrar skoðunar að félagsfólk Eflingar vilji fá SGS-samninginn [samning Starfsgreinasambandsins] og þær afturvirku hækkanir sem þar eru,“ segir Halldór enn fremur og bætir því við að verkefni SA sé núna að heyra í sínum félagsmönnum og kalla eftir þeirra sjónarmiðum gagnvart miðlunartillögunni.

„Í beinu framhaldi er ég í betri færum til að meta hver afstaða okkar félagsmanna er. Við munum að sjálfsögðu skila umbeðnum gögnum og atkvæðaskrá til ríkissáttasemjara eins og okkur ber að gera að lögum og upplýsa okkar félagsmenn um helstu efnisatriði sem verið er að kjósa um auk þess að svara spurningum þeirra og ræða álitaefni til að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun,“ segir Halldór Benjamín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka