Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fagnar því að dómari í máli ríkissáttasemjara gegn Eflingu hafi virt það við félagið að það þyrfti lengri tíma til að grípa til varna í málinu. Hins vegar hefði hún viljað sjá lengri frest en dómari veitti. Þetta sagði hún við mbl.is eftir þinghald í málinu fyrir skömmu.
Ríkissáttasemjari leitaði til héraðsdóms eftir að Efling neitaði að afhenda kjörskrá sína til embættisins svo hægt væri að hefja rafræna atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari setti fram í síðustu viku. Hefur Sólveig jafnframt sagt að hún telji miðlunartillöguna ólögmæta og að hún uppfylli ekki skilyrði laga um stéttarfélög og vinnudeilur.
Efling óskaði í dag eftir því við fyrirtöku málsins í héraði að málinu yrði frestað til að félagið gæti lagt fram greinargerð sína og ákvað dómari að fresta málinu til föstudags.
„Við fengum frest, en hefðum viljað fá lengri frest eins og fram kom í máli lögmanns Eflingar, en það var augljóst að það var ekki að fara að gerast. Í það minnsta fengum við lengri frest en ríkissáttasemjari vildi,“ sagði Sólveig við blaðamann mbl.is að þinghaldi loknu. „Ég fagna því að það er virt við okkur að Efling þarf tíma til að grípa til varna,“ sagði hún jafnframt.
Atkvæðagreiðslu Eflingar um verkfallsboðun á hótelum Íslandshótela lýkur klukkan 20:00 í dag. Sólveig segir að um rafræna atkvæðagreiðslu sé að ræða, en þó hafi einhver utankjörfundaratkvæði borist. Hún segist þó eiga von á því að talning muni ganga fljótt fyrir sig og að niðurstaðan verði ljós fljótlega eftir að atkvæðagreiðslu lýkur.