„Þetta var auðvitað bara mjög áhugavert að upplifa,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags, í samtali við mbl.is í Héraðsdómi Reykjavíkur nú síðdegis í kjölfar þinghalds í innsetningarmáli ríkissáttasemjara gegn stéttarfélaginu.
„Ég held að öll þau sem voru þarna inni í þessum dómsal og hlustuðu á málflutninginn hljóti nú að sjá – hafi þau ekki gert það áður – hversu ótrúlegt framferði ríkissáttasemjara, manns sem gegnir þessu háa embætti, hefur verið gegnum þessa atburðarás,“ heldur Sólveig áfram.
Segist hún ítrekað hafa hugleitt, á meðan hún hlýddi á málflutninginn, að þarna væri farið fram með eins grófum hætti og hægt væri að hugsa sér í þeim einbeitta tilgangi að svipta formann Eflingar, formann samninganefndar og samninganefnd tækifærinu til að leiða gerð kjarasamnings til lykta fyrir hönd félagsfólks.
„Þetta er aðför að lýðræðinu, þetta er aðför að okkar lögbundnu réttindum og öll málsmeðferð ríkissáttasemjara er svo gagnrýniverð og ólögleg að ég hef enga trú á því að hans málflutningur hljóti framgang,“ sagði Sólveig enn fremur. Svo langt út fyrir öll mörk væri seilst í þessu máli að hún tryði ekki öðru en að Efling hefði sigur.
Þar sem Efling leggist gegn afhendingu kjörskráa má þá túlka það sem svo að félagið leggist einnig gegn miðlunartillögu ríkissáttasemjara og atkvæðagreiðslunni sem slíkri?
„Afstaða okkar er að afhenda ekki þessa kjörskrá og afstaða okkar gagnvart þessari miðlunartillögu er mjög skýr. Við teljum hana lagða fram með ólöglegum hætti og að ríkissáttasemjari hafi með framgöngu sinni brotið þau lög sem honum er skylt að starfa eftir. Það er svo ótrúlegt að sjá hve langt menn eru tilbúnir að seilast til að svipta félagsfólk Eflingar þessum lögbundnu réttindum sínum til að gera kjarasamninga og ég fullyrði að aldrei hefur verið farið fram með viðlíka hætti gegn nokkru öðru félagi,“ sagði Sólveig.
Ástæðu þessarar framkomu gagnvart Eflingu sagðist hún telja að ríkissáttasemjari gæti ekki sætt sig við forystu Eflingar eða samninganefnd félagsins og auk þess ekki horfst í augu við það að Efling ynni samkvæmt lögum og rækti að auki allar skyldur sínar til fulls í þágu félagsfólks. Sú nálgun hentaði ríkissáttasemjara einfaldlega ekki á þessum tímapunkti og því færi hann fram sem raun bæri vitni og það væri ömurlegt að upplifa.
„Gæti ekki sætt sig við forystu Eflingar,“ er þetta persónulegt?
„Að sjálfsögðu er þetta ekki persónulegt, þetta er hápólitískt, og ef einhver ætlar að fara að halda því fram á þessum tímapunkti er enn hægt að finna nýjan botn,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir að lokum í héraðsdómi í dag.