Ráðuneytið vísar frá stjórnsýslukæru Eflingar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur vísað frá stjórnsýslukæru Eflingar vegna miðlunartillögu ríkissáttasemjara frá því 26. janúar. Þetta kemur fram í úrskurði sem birtur er á vef ráðuneytisins, en úrskurðurinn var kveðinn upp í gær.

Í gær greindi Efling frá því að félagið hefði ákveðið að snúa sér til héraðsdóms vegna „viðbragðsleysis ráðherra“ við stjórnsýslukærunni. Sagði Sólveig við það tækifæri við mbl.is að stjórnsýslukæran hefði verið dregin til baka. Ekki er ljóst hvort að úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp fyrir þann tíma, en Efling sendi frá sér tilkynningu um ákvörðun sína á öðrum tímanum í gær.

Í úrskurði ráðuneytisins segir að ráðuneytið líti svo á að miðlunartillagan hafi verið liður í sáttastörfum ríkissáttasemjara í yfirstandandi vinnudeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Ekki hafi verið um að ræða ákvörðun um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, en ráðuneytið metur það svo að eðli og einkenni ákvarðana sem heyri undir þá málsgrein séu meðal annars einstakar ákvarðanir stjórnvalda sem beinast almennt aðeins að tilteknum aðila máls og leysa úr afmörkuðu máli með bindandi hætti. „Ákvarðanir um málsmeðferð og ákvarðanir sem hafa almenn réttaráhrif teljast því ekki til ákvarðana um rétt eða skyldu manna í þessu sambandi,“ segir í úrskurðinum.

Er því niðurstaða ráðuneytisins að vísa kærunni frá. „Í ljósi alls framangreinds verður að mati ráðuneytisins ekki talið að í máli þessu sé fyrir hendi stjórnvaldsákvörðun sem heimilt er að kæra til æðra stjórnvalds á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Stjórnsýslukærunni verður vísað frá ráðuneytinu þegar af þessari ástæðu.“

Bent er á að æðra stjórnvald geti frestað réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar á meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því. Ráðuneytið telur það hins vegar ekki eiga við í þessu tilfelli. „Að mati ráðuneytisins á þessi heimild ekki við nema um sé að ræða stjórnvaldsákvörðun sem telst kæranleg. Þá leiðir af ákvörðun ráðuneytisins um frávísun kærunnar að málið er ekki lengur til meðferðar hjá ráðuneytinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert