Ríkissáttasemjari getur ekki sætt sig við forystuna

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var viðstödd aðalmeðferðina í dag.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var viðstödd aðalmeðferðina í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er aðför að lýðræðinu og okkar lögbundnu réttindum,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, eftir að málflutningi lauk í innsetningarmáli ríkissáttasemjara í dag.

„Öll málsmeðferð ríkissáttasemjara er svo gagnrýniverð og ólögleg að ég hef enga trú á því að málflutningur hans hljóti framgang fyrir augum dómstóla. Þetta hlýtur að enda með þeim hætti að Efling hafi sigur í þessu máli, ég trúi ekki öðru.“ 

Andri Árnason lögmaður ríkisins í málinu.
Andri Árnason lögmaður ríkisins í málinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sólveig sagðist hafa hugleitt á meðan málflutningi stóð með hve grófum hætti sé farið fram í þeim einbeitta tilgangi að svipta formann Eflingar og formann samninganefndar félagsins sem og samninganefndina sjálfa, tækifærinu til að leiða kjarasamningsgerð til lykta fyrir hönd félagsfólks.

Munu ekki afhenda kjörskrána

Hún sagði Eflingu ekki munu afhenda kjörskrá sína og að afstaða Eflingar gagnvart miðlunartillögunni væri sú að hún hefði verið lögð fram með ólöglegum hætti og að ríkissáttasemjari hefði með málsmeðferð sinni brotið þau lög sem honum væri skylt að starfa undir.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ömurleg upplifun

„Það er svo ótrúlegt að upplifa hversu langt menn eru tilbúnir að seilast til að svipta félagsfólk Eflingar þessum lögbundnu réttindum til að gera kjarasamninga.

Ég fullyrði að aldrei hefur verið fram með viðlíka hætti gegn neinu öðru félagi. Ástæða þess er að ríkissáttasemjari getur ekki sætt sig við forystu Eflingar og getur ekki sætt sig við samninganefnd Eflingar.

Hann getur ekki horfst í augu við að við erum augljóslega að vinna eftir öllum þeim lögum sem okkur ber og ræktum allar okkar skyldur að fullu samkvæmt lögum félagsins og samkvæmt öðrum lögum sem við eigum að vinna eftir.

Við störfum í umboði félagsfólks. Sú nálgun sem við tökum hentar einfaldlega ekki á þessum tímapunkti og þess vegna er farið fram með þessum hætti og það er ömurlegt að upplifa það,“ sagði Sólveig Anna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert