Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ljóst að 21 þúsund Eflingarfélaga eiga allt sitt undir aðferðafræði Eflingar sem gengur út á að „telja og velja“.
Hann segir Eflingarfólk fara inn á vinnustaði og velja svo þá vinnustaði sem taldir eru líklegir til að kjósa með verkfalli og nota það fólk til að velja fyrir alla hina.
„Það sem hér er að gerast er að það er í raun búið að svipta félagsfólk Eflingar möguleikanum á því að hafa áhrif á eigin hag,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.
„Svo er maður auðvitað mjög hugsi yfir því að það sé almennt viðurkennt að það sé ómögulegt að ná 25% kosningaþátttöku hjá Eflingu. Við erum með deilu sem er linnulaust í fjölmiðlum, frá morgni til miðnættis, forystu sem talar eins og um nánast sé um landráð að ræða og samningarnir séu aðför að félagsfólki Eflingar.“
Þannig segir hann skjóta skökku við að mat forystu Eflingar sé að félagsfólk hafi ekki meiri áhuga en svo að það sé algerlega útilokað að fá 25 prósent af félagsfólki til að taka þátt í kosningum, einn af hverjum fjórum. „Maður hlýtur að spyrja sig hvort forysta Eflingar hafi aldrei velt fyrir sér hvaða umboð hún hefur til þessara aðgerða sem hún hefur boðað.“
Hann segir málflutning mótaðila sinna því miður kominn út fyrir öll mörk.
„Forysta Eflingar er ekki bara í stríði við aðildarfyrirtæki SA heldur virðist hún komin í stríð við bæði félags- og forsætisráðherra, miðað við hvaða orð hafa verið látin falla síðustu daga. Það er til viðbótar við stríðið sem háð hefur verið við fyrrum bandamenn í SGS, ASÍ, aðra stjórnarmenn Eflingar og starfsfólk.“
Halldór Benjamín segir stöðuna dapurlega þar sem deilan sé viðfangsefni SA og Eflingar, og ekki annarra.
„Það er auðvelt að missa sjónar á því, í allri þessari skæðadrífu útspila og kærumála, að mikilvægasta verkefnið, sem fer ekki frá okkur og er beinlínis skylda okkar, er að ná kjarasamningum fyrir okkar umbjóðendur. Svo að störf fyrirtækjanna raskist ekki og það sem starfsfólkið ber úr býtum hækki í takt við fólk í öðrum starfsstéttum.“
Inntur eftir viðbrögðum um vantraust Eflingar gagnvart ríkissáttasemjara segir Halldór Benjamín mikilvægt að virða reglur réttarríkis. „Við berum fullt og óskorað traust til ríkissáttasemjara og dómstóla.“