Samruninn kunni að bæta lánskjör

Bjarni telur að málið kunni að dragast.
Bjarni telur að málið kunni að dragast. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra líst ágætlega á sameiningu Íslandsbanka og Kviku banka hf. Hann telur þó að málið verði ekki afgreitt fyrr en eftir eitt til tvö ár skyldi Íslandsbanki taka vel í sameininguna. Þetta kom fram í máli hans í Silfrinu í dag.

Greint var frá því á fimmtudaginn að Íslands­banka hefði borist er­indi frá stjórn Kviku þar sem óskað var eft­ir af­stöðu stjórn­ar Íslands­banka til þess að hefja samrunaviðræður.

Stjórn Íslands­banka mun taka er­indið til umræðu í næstu viku og ákveða næstu skref af hálfu bank­ans. 

Allt gott sem bætir lánskjör

Bjarna líst vel á að samruninn kunni að bæta lánskjör, þó þýði samruninn auðvitað líka skertari samkeppni.

„Mér líst vel á allt sem er til þess fallið að bæta lánskjör, eins og menn segja að muni gerast í slíkum sameinuðum banka, sem á að geta skilað sér til heimila og fyrirtækja. Hagkvæmari rekstareiningar er eitthvað sem ég held að okkar samfélag muni njóta góðs af,“ segir Bjarni og bætir við:

„Á hinni vogarskálinni er auðvitað skertari samkeppni, færri aðilar á markaði, en það eru takmörk fyrir því hvað okkar samfélag ber margar stórar fjármálastofnanir.“

Málið muni taka tíma

Benti Bjarni á að Samkeppniseftirlitið muni taka málið fyrir, skyldi Íslandsbanki taka vel í beiðni Kviku. 

„Ég held að það geri sér allir grein fyrir því að Samkeppniseftirlitið mun þurfa að hafa á þessu skoðun. Það sem ég hef helst áhyggjur af er að það taki langan tíma eins og stærri mál hafa haft tilhneigingu til þess að gera. Þess vegna séum við að ræða hér mál sem ekki fáist botn í fyrr en eftir eitt til tvö ár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert