Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar, segir að engin ófærð sé í Reykjavík og að borginni hafi engar upplýsingar borist um nein vandamál sem mætti kalla. „Það ættu allir að komast um sem vilja,“ segir hann í samtali við mbl.is, en bætir við að aðallega verði blint í hviðum.
Elín Jónsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir veðrið að mestu gengið niður á höfuðborgarsvæðinu, en að áfram megi búast við éljum og takmörkuðu skyggni þegar gangi á með hryðjum. Veðrið færist nú norður og austur eftir landinu og er lægðin enn að dýpka. Því gæti hvesst enn meira þar sem veðrið á eftir að ganga yfir.
Eiður segir að um 5 cm föl geti verið í húsagötum og í efri byggðum, en að fæstir ættu að eiga í vandræðum vegna þess. Þá séu allar vélar á ferðinni að moka.
Appelsínugul viðvörun var í gildi á höfuðborgarsvæðinu milli 6 og 8 í morgun, en veðrið átti að ganga hratt niður.
Elín segir að sunnanveðrið sem viðvaranirnar snerust mest um sé gengið hjá. Tekin sé við suðvestanátt með éljum, þannig að blint geti orðið. Mælir hún því með að fólk meti það sjálft hvort það treysti sér út í veðrið áður en lagt sé í hann.
Hún segir að smám saman sé að hvessa við Breiðafjörð og á norðanverðu landinu. Segir hún að svo virðist sem spár hafi að mestu gengið eftir. Á höfuðborgarsvæðinu hafi vindurinn verið örlítið minni en spáin hafi gert ráð fyrir.
Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar var vindhraðinn um og yfir 20 m/s klukkan sjö í morgun á höfuðborgarsvæðinu, en mestu hviðurnar fóru upp í 25 m/s á Hólmsheiði.
Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins mældust mestu hviðurnar 37 m/s við Reykjanesvita og við Festarfjall fóru þær upp í 36 m/s og við Bláfjallarskála í 34 m/s. Á Reykjanesbrautinni voru hviður upp á 28 m/s.