„Hættið málþófinu og höldum áfram að vinna vinnunna,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra við þingmenn Pírata við upphaf þingfundar í dag þegar borin var upp dagskrártillaga Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, þess efnis að taka umræðu um útlendingafrumvarpið af dagskrá þingfundar í dag.
Andrés lagði fram tillöguna til að liðka fyrir öðrum málum. Tillagan var hins vegar felld í atkvæðagreiðslu með með 29 atkvæðum gegn sex.
Andrés sagði að með tillöguninni gæfist tækifæri til að liðka fyrir umræðu um þau stjórnarfrumvörp sem hefðu beðið annarrar umræðu í tvær vikur „vegna þess að forseti velur að setja þau alltaf á eftir útlendingafrumvarpinu. Þessi staðsetning stjórnarfrumvarpa, frumvarpa fjármála- og efnahagsráðherra, bendir til að stjórnarliðum þyki brýnt að ljúka þeim en af atkvæðagreiðslutöflunni að dæma þá þykir þeim það ekki nógu brýnt, vilja ekki hleypa þeim á dagskrá í dag,“ sagði Andrés.
Hann sagði enn fremur að samþykkt tillögunnar myndi líka gefa allsherjar- og menntamálanefnd tækifæri til að taka útlendingamálið til frekari skoðunar
„En það virðist ekki vera meiri hluti fyrir því að vinna þetta mál betur í dag. Sjáum bara til seinna.“
Bjarni sagði að þegar „menn haga sér eins og gert er í þessu máli sem hér hefur verið á dagskrá undanfarna daga, að beita sér í grímulausu málþófi en þykjast vera á sama tíma að greiða fyrir störfum þingsins, þá dragi töluvert úr virðingu fyrir þingstörfunum og stjórnmálastarf í landinu. Þegar þingið sýnir ekki getu til þess að leyfa meirihlutaviljanum að ná fram að ganga og þeirri forgangsröðun sem yfirgnæfandi meiri hluti þingmanna er sammála um að þurfi að vera hér, vegna þess að örfáir þingmenn taka þingið í gíslingu svo dögum skiptir, þá sé það slæmt fyrir orðspor Alþingis. Það sé vont fyrir stjórnmálin á Íslandi og það sé alls ekki til heilla fyrir þjóðina,“ sagði Bjarni og bætti síðan við: „Ég segi bara: Hættið málþófinu og höldum áfram að vinna vinnunna.“