Segja verkfallsbrot framin á Grand hóteli

Stéttarfélagið segir að verkfallsverði hafi verið hent út.
Stéttarfélagið segir að verkfallsverði hafi verið hent út. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Efling segir að verkfallsbrot hafi verið framin á Grand hóteli ásamt því að þau hafi átt sér stað á Íslandshótelum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Eflingu.

Stéttarfélagið segir jafnframt að verkfallsverði hafi verið hent út með afli af öryggisverði þegar verið var við eftirlit á Grand hóteli og gerð athugasemd við vinnu starfsfólks.

Án raka

„Verkfallsverðir Eflingar urðu í dag vitni að ásetningsbrotum Íslandshótela gagnvart verkfallsaðgerðum félagsins,“ segir í tilkynningu.

„Var verkfallsvörðum meinaður aðgangur að rýmum og fyrirskipað án raka að aðeins mættu tveir verkfallsverðir fara inn á hvert hótel í einu. Tilgangur fyrirtækisins með þessu var augljóslega að hylma yfir verkfallsbrotum.“

Fylgt um hvert fótmál

Þá segir að einungis tveimur verkfallsvörðum hafi verið hleypt inn á Grand hotel. „Var þeim fylgt um húsnæðið af öryggisverði í hverju fótmáli. Verkfallsverðir komu á 6. hæð hótelsins að starfsfólki sem hafði verið fyrirskipað af stjórnendum að ganga í störf Eflingarfélaga í verkfalli, sem er verkfallsbrot. Óskuðu verkfallsverðir eftir að ræða við starfsfólkið og biðja það að taka ekki þátt í verkfallsbrotum. Ýtti þá öryggisvörður Íslandshótela verkfallsvörðum með handafli af vettvangi,“ segir í tilkynningu.

Þá segir í tilkynningu að verkfallsvörðum hafi verið meinaður aðgangur að Íslandshótelum um þrjúleytið í dag. Segir að eftir nokkuð stapp hafi verkfallsvörðum verið hleypt aftur inn.

Hafna hótunum

„Eftir nokkra stund var orðið við kröfunni og fóru Eflingarfélagar þá af vettvangi að frátöldum fimm verkfallsvörðum sem sinntu í kjölfarið verkfallsvörslu,“ segir í tilkynningu.

„Félagið hafnar með öllu ósannindum sem Íslandshótel hafa sent til fjölmiðla í dag um að verkfallsverðir Eflingar hafi haft uppi ótilgreindar „hótanir“.

Slíkt er hreinræktaður uppspuni og dæmigert fyrir villandi upplýsingar fyrirtækisins til starfsfólks síns og almennings á síðustu viku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert