„Á meðan þeir tala, þá gerir ríkisstjórnin ekkert af sér hér í þingsalnum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á þingfundi í dag og uppskar framíköll og hlátur. Átti hann við Pírata sem héldu úti „svokölluðu málþófi“ um útlendingafrumvarpið.
Greidd voru atkvæði um lengingu þingfundar, sem ríkisstjórnin var fylgjandi í ljósi umræðna um útlendingafrumvarpið sem hafa löngum staðið yfir fram á nótt.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, sagðist botna lítið í málþófi Pírata í umræðum um útlendingafrumvarpið, þar sem ríkisstjórnin hafi þynnt málið svo mikið út að það sé orðið að engu.
„Píratar ættu að gleðjast yfir því að þeim hafi tekist á fimm árum að þynna út þetta litla útlendingamál dómsmálaráðherra að því marki að það mun ekki skipta neinu máli,“ sagði Sigmundur og bætti við í lokin:
„En að því sögðu þá er svokallað málþóf háttvirtra Pírata ekki gagnslaust. Því að á meðan þeir tala, þá gerir ríkisstjórnin ekkert af sér hérna í þingsal,“ sagði Sigmundur og uppskar hlátur og framíköll. Enn var kliður í þingsalnum þegar hann bætti við:
„Þess vegna ættum við að huga að því, herra forseti, að það getur verið gott að koma í veg fyrir tjón. Engu að síður ætla ég að greiða atkvæði með lengingu þingfundar svona til þess að liðka fyrir þingstörfum eins og minn er háttur herra forseti.“
Lenya Rún steig áður upp í pontu gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að mæta á þingfund einungis til þess að greiða atkvæði með lengingu þingfundar en sagðist sakna stjórnarliðanna á þingfundum þar sem rætt væri um útlendingafrumvarpið.
„Ég geri ráð fyrir því að það verði greitt með lengri þingfundi og þá vona ég að meirihlutinn láti sjá sig í þingsal eða að allavega inni í hliðarsal og sýni að það sé verið að hlusta á okkar kröfur,“ sagði Lenya.