Fordæma framkomu verkfallsvarða

Verkfallsverðir Eflingar úti fyrir læstum dyrum hótelsins.
Verkfallsverðir Eflingar úti fyrir læstum dyrum hótelsins. Ljósmynd/Örvar Þór Guðmundsson

„Við tökum undir það sem Íslandshótel sendu frá sér um sama efni um framkomu og truflun verkfallsvarða Eflingar gagnvart gestum og starfsfólki. Við teljum að markmiðum um verkfallsvörslu verði náð með yfirveguðum hætti.“

Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is.

Samtökin hafa sent út yfirlýsingu þar sem þau fordæma framkomu verkfallsvarða Eflingar.

Jóhannes segir að hans fólk og starfsfólk og gestir Íslandshótela hafi upplifað hálfgerða æsingaframkomu af hálfu verkfallsvarða Eflingar.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Ljósmynd/Aðsend

Saka að ósekju fólk um verkfallsbrot 

„Það virðist líka vera skringilegur skilningur á vinnumarkaðslöggjöfinni þar sem er verið að ganga á starfsfólk í öðrum stéttarfélögum með jafnvel ógnandi framkomu og saka það um verkfallsbrot. Þetta er fólk sem er að vinna sína vinnu og á sannanlega ekki að vera í verkfalli.“

Jóhannes segir að erlendir gestir hótelanna eigi ekki að þurfa að sitja undir því að hópur fólks valsi um hótelið og trufli fólk í kringum það.

„Íslandshótel voru tilbúin að vinna með verkfallsvörðunum og fara með þeim um hótelin, en þeir hafa þurft að draga úr þeim vilja vegna þessarar framkomu. Við munum ekki una því þegar þessi framganga verkfallsvarðanna er farin að skaða upplifun og valda gestum hótelanna vanlíðan. Þá er þetta ekki í boði.“

Jóhannes segist vilja hvetja verkfallsverði Eflingar til að láta af þessu háttalagi og sýna yfirvegun við störf sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert