Jörð skelfur yst á Reykjanesskaga

Hrinan hófst um klukkan 18.45.
Hrinan hófst um klukkan 18.45. Kort/map.is

Skjálftahrina er hafin skammt undan Reykjanestá.

Segja má að hrinan hafi hafist um klukkan 18.45 í kvöld. Síðan þá hafa mælst fleiri tugir skjálfta, samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar.

Stærsti skjálftinn 3,7 að stærð

Þrír skjálftar hafa mælst yfir þremur að stærð, miðað við bráðabirgðamælingar stofnunarinnar.

Tveir þeirra voru af stærðinni 3,3 og riðu yfir klukkan 19.12 og 19.51 í kvöld. 

Stærsti skjálftinn var 3,8 að stærð. Reið sá yfir klukkan 19.45.

Uppfært:

Skjálftahrinan á upptök sín um 4 til 5 kílómetra vestur af Reykjanestá og eru skjálftarnir á um 4 til 7 kílómetra dýpi.

Frá þessu greinir Veðurstofan í tilkynningu. Segir þar að klukkan 21.40 hafi Veðurstofan verið búin að mæla tæplega 60 skjálfta.

Átta hafa verið af stærð 3 eða stærri, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni, sem segir skjálftana fara minnkandi og að hrinan virðist í rénun. 

Ekki er óvanalegt að skjálftahrinur verði á þessu svæði. Áfram verði þó fylgst náið með framvindunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert