Skjálftahrina er hafin skammt undan Reykjanestá.
Segja má að hrinan hafi hafist um klukkan 18.45 í kvöld. Síðan þá hafa mælst fleiri tugir skjálfta, samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar.
Þrír skjálftar hafa mælst yfir þremur að stærð, miðað við bráðabirgðamælingar stofnunarinnar.
Tveir þeirra voru af stærðinni 3,3 og riðu yfir klukkan 19.12 og 19.51 í kvöld.
Stærsti skjálftinn var 3,8 að stærð. Reið sá yfir klukkan 19.45.
Uppfært:
Skjálftahrinan á upptök sín um 4 til 5 kílómetra vestur af Reykjanestá og eru skjálftarnir á um 4 til 7 kílómetra dýpi.
Frá þessu greinir Veðurstofan í tilkynningu. Segir þar að klukkan 21.40 hafi Veðurstofan verið búin að mæla tæplega 60 skjálfta.
Átta hafa verið af stærð 3 eða stærri, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni, sem segir skjálftana fara minnkandi og að hrinan virðist í rénun.
Ekki er óvanalegt að skjálftahrinur verði á þessu svæði. Áfram verði þó fylgst náið með framvindunni.