VG lýsa yfir áhyggjum af fjármögnun háskólanna

Flokksráð VG bendir á að háskólar séu undirstöðustofnanir í þekkingarsamfélagi.
Flokksráð VG bendir á að háskólar séu undirstöðustofnanir í þekkingarsamfélagi. mbl.is/Sigurður Bogi

Flokksráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir yfir áhyggjum af fjármögnun íslenskra háskóla og tekur fram að þeir séu undirstöðustofnanir í þekkingarsamfélagi.

Á sama tíma og vel hefi tekist að styðja við samkeppnissjóði í rannsóknum og nýsköpun og stuðningur við atvinnulífið á þessu sviði hafi verið stóraukinn þurfi að huga að undirstöðunum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktunum flokksráðs VG, en flokksráðsfundur var haldinn í Hafnarfirði í dag.

Kalla eftir breytingum á útlendingafrumvarpi

Flokkráð fagnar því að heildarstefnumótun í málefnum innflytjenda sé hafin. Mikilvægt sé að henni verði flýtt og breytingar verði skoðaðar á löggjöf um útlendinga og málefni innflytjenda að henni lokinni.

Flokksráð hvetur jafnframt þingmenn VG til að vinna að frekari breytingum á frumvarpi dómsmálaráðherra sem nú liggur fyrir Alþingi.

Þá er lagt til að lögum um atvinnuréttindi útlendinga verði breytt „eins fljótt og auðið er“ þannig að þau sem fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða fái jafnframt atvinnuleyfi.

Stjórnvöld vinni að umbótum í fiskeldismálum

Í ályktuninni er brýnt fyrir stjórnvöldum til að vinna gagngerar og heildstæðar umbætur í fiskeldismálum.

Flokksráð lýsir ánægju með ákvörðun matvælaráðherra að óskar eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar og að hún verði svo nýtt til þess að kafa ofan í stöðu málaflokksins og búa til grundvöll til að ráðast í úrbætur.

Þá telur fundurinn stefnumótun matvælaráðherra undir formerkjum Auðlindarinnar okkar vera stór skref í átt að aukinni sátt um sjávarútveg í langan tíma.

Fundurinn telur jafnframt að auka þurfi aflaheimildir í 5,3% hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins með byggðatengdum heimildum og strandveiðum.

Fagna breytingum á húsnæðis- og barnabótakerfum

Þá fagnar flokksráðið áherslum sem birtust í stuðningsaðgerðum ríkisstjórnarinnar í desember í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Breytingum á húsnæðis- og barnabótakerfum sem kynntar voru í tengslum við kjarasamninga er einnig fagnað.

Markvissar aðgerðir í húsnæðismálum eru mikilvægar að mati flokksráðsins, með uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu í gegnum aukin stofnframlög. Sú langtímasýn sem birtist í gerð fyrsta rammasamkomulaginu í húsnæðismálum á milli ríkis og sveitarfélaga er einnig mikilvægt að mati flokksráðs, en samkomulagið kveður á um byggingu meira en 30 þúsund íbúða á næstu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert