Íslenskt samfélag mun lamast ef verkföll Eflingar sem eru fyrirhuguð síðar í vikunni ganga eftir.
Þetta sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Flutningabílstjórar sem eru í Eflingu – stéttarfélagi og starfa hjá Olíudreifingu, Samskipum og Skeljungi, hafa samþykkt boðun verkfalls sem hefst á hádegi næstkomandi miðvikudag.
„Það er ljóst að ef verkföllin halda áfram mun íslenskt samfélag lamast,“ sagði Halldór Benjamín og bætti við: „Þegar öll eldsneytisdreifing er stöðvuð skapast mjög slæmt ástand, mjög hratt.“
Hann nefndi að annaðhvort muni kjaradeilan leysast fyrrihluta vikunnar eða að samfélagið fari allt í hnút.
Jafnframt sagði hann menn vera að bíða eftir úrskurði Landsréttar í sambandi við hvort Eflingu beri að afhenda ríkissáttsemjara kjörskrá sína, en báðir aðilar hafa skuldbundið sig til að una niðurstöðu dómstólsins.
Kvaðst hann vonast eftir niðurstöðu úr Landsrétti í þessari viku.
„Það er enginn tilgangur með verkföllum Eflingar sem eru í gangi núna,“ sagði hann sömuleiðis og bætti við að stéttarfélagið hafi ekki mætt á boðaðan samningafund í síðustu viku þrátt fyrir að tilgangur verkfalla sé að knýja samningsaðila til gerðar kjarasamnings.