Niðurstöður könnunar Maskínu, sem unnin var fyrir Evrópuhreyfinguna, sýna að fleiri eru fylgjandi því að Ísland gangi í Evrópusambandið en mótfallnir.
Könnunin var gerð í byrjun febrúar. Leiddi hún í ljós að 40,8 prósent svarenda eru hlynnt því að Ísland gangi í Evrópusambandið, en 36,9 prósent eru því andvíg.
Sé einungis horft til þeirra sem tóku afstöðu, eru 53,3 prósent hlynnt inngöngu.
„Þetta er í fyrsta sinn frá því mælingar Maskínu (áður MMR) hófust, árið 2011, sem við sjáum að stuðningur við inngöngu er meiri en andstaðan og kannski er það einfaldlega vegna þess að við erum að stíga meir og meir upp úr skotgröfunum og horfa á málin af meiri yfirvegun,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, formaður Evrópuhreyfingarinnar og fyrrverandi þingmaður Viðreisnar, í tilkynningu.
Í könnun sem Maskína lagði fyrir í desember 2022 var spurt um afstöðu fólks gagnvart því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um að Ísland tæki aftur upp aðildarviðræður við ESB.
Tæpur helmingur þjóðarinnar, eða 48%, var fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um slíkt, en ef einungis er horft til þeirra sem tóku afstöðu voru 66% hlynnt því.