Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála, segir það á misskilningi byggt að halda því fram að vanfjármögnun Háskóla Íslands byggi á því að framlög til háskólans hafi verið veitt í sjóð fyrir sérverkefni. Hið rétta sé að ekki hafi verið tekið fé af rekstri HÍ til að fjármagna samstarf skólanna. Aukalega hafi milljarður króna verið settur í hvataverkefni sem miði að auknu samstarfi háskóla.
Þannig svarar Áslaug gagnrýni sem Geir Sigurðssonar, deildarstjóri mála- og menningardeildar Hugvísindasviðs Háskóla Íslands setti fram í skoðanapistli á Vísi. Sakar Geir ráðherra um skera niður fé til Háskólans en setja það þess í stað í „óskýr“ verkefni. Þá vanti milljarð í rekstur skólans sem sé einmitt sú upphæð sem veitt var í sjóðinn.
„Það eru margar rangfærslur í greininni. Í fyrsta lagi var það fé sem sett var í verkefnið ekki tekið úr rekstarfé háskólanna til daglegs reksturs. Í því samhengi er þó hægt að benda á að verið er að endurskoða reiknilíkanið sem hefur að gera með rekstarfé háskólans og hefur verið beðið um í mörg ár. Ég hef skilning á því að óþreyja sé eftir því að það klárist," segir Áslaug.
Geir nefnir einnig að skammur tími hafi verið til að sækja um í verkefnasjóðinn sem var upp á milljarð króna. „Áherslur sjóðsins lágu fyrir í september og umsóknarferlið var opið í desember. Umsóknir voru þvert á það sem haldið er fram mjög vandaðar og úthugsaðar,“ segir Áslaug.
Hún segir að sjóðurinn hafi verið viðleitni til frekara samstarfs háskólanna með nýsköpun í huga. „Það er hins vegar þannig að þeir vilja gera meira af því sama vilja halda óbreyttu kerfi,“ segir Áslaug.
Hún bendir á að hlutir hafi ekki gengið nægjanlega hratt fyrir sig með tilliti til mönnunar í heilbrigðisvísindum og raungreinum og hlutverk samstarfsins sé m.a. að fjölga nemendum í slíkum fögum og auka fjarnám.
Þá segir hún að þegar þegar ákveðið var að fara af stað með sjóðinn hafi ekki verið útlit fyrir rekstrarerfiðleika hjá háskólunum. Árið 2022 kemur síðan út neikvætt en það var ekki fyrirsjáanlegt. Eins eigi Háskóli Íslands aðild að 20 verkefnum af 25 og fær því stóran hluta af því fjármagni sem útdeilt var, að sögn Áslaugar.
„Þá hafa rektorar háskólanna fagnað þessu og auknum hvata í samstarf skólanna, enda sjáum við fjölmörg verkefni verða að veruleika sem hafa kannski setið á hakanum. Háskólarnir gripu þetta tækifæri því fagnandi. Hugmyndirnar sem fjármunirnir fara í koma allar frá háskólunum sjálfum – þeirra frumkvæði í greiningu á samstarfsmöguleikum sín á milli. Þeir höfðu sjálfstæði í vali verkefna sem styðja við nýsköpun og framfarir á háskólastigi," segir Áslaug.
Einnig bendir hún á að öflugt samstarf háskólanna sé lykilatriði til að vinna á móti smæð íslensks háskólakerfis, sem sé dreift á sjö háskóla sem eru í mikilli samkeppni við erlenda háskóla.