Engar mælingar liggja fyrir sem geta útskýrt bráðnun ísþekjunnar á Öskjuvatni.
Ýmsar orsakir þykja líklegar, þar á meðal aukinn jarðhiti, en á vef Veðurstofunnar kemur fram að engin merki um slíkt séu á landi.
Stöðugt landris hefur verið við Öskju frá því í ágúst árið 2021. Ástæðan er talin vera kvikuinnskot sem talið er vera á 2 til 3 kílómetra dýpi.
Haft er eftir Benedikt G. Ófeigssyni, sérfræðingi í jarðskorpuhreyfingum á Veðurstofu Íslands, að engin gögn tengi ísleysið nú við landrisið. Hann segir þó möguleika að ísleysið tengist aukinni virkni í eldfjallinu.
Á nýlegum gervitunglamyndum af vatninu sést að ísinn hefur hörfað að miklu leyti sem þykir afar óvenjulegt á þessum tíma árs.
Svipaður atburður átti sér stað í febrúar árið 2012, fyrir utan að ekkert landris átti sér stað. Niðurstöður úr mælingum þá sýndu heldur engin mælanleg merki um aukinn jarðhita.
„Nægur varmi er í vatninu sjálfu til að bræða ísinn en til þess þarf að koma vatninu undir ísnum á hreyfingu, þetta gætu verið breytingar í jarðhita, gasuppstreymi, skriður eða vindur sem kemst í opna vök,“ segir í færslunni.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/02/13/islausa_svaedid_rumlega_tvofaldast_ad_staerd/
Þá kemur einnig fram að önnur skýring gæti verið að sérstakar veðuraðstæður hafi orsakað þessa bráðnun en sterkir suðlægir vindar hafa geysað um hríð ásamt nokkrum hlýindum. Mældist hitastig við Upptyppinga 5 til 9 stig á tímabili.
Veðurstöð við Upptyppinga er í um 25 kílómetra fjarlægð frá Öskjuvatni sem stendur um 600 metra hærra. Önnur vötn á Hálendinu eru þó enn ísilögð og engin merki um að þau séu að opnast vegna veðuraðstæðna.