Trúa á áhrif verkfallsins

Sólveig Anna Jónsdóttir í Karphúsinu.
Sólveig Anna Jónsdóttir í Karphúsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við trúum því að okkar aðgerðir muni skila betri niðurstöðum,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, að loknum fundi ásamt samninganefnd Samtaka atvinnulífsins og settum ríkissáttasemjara.

Verkfall olíubílstjóra hófst klukkan tólf í dag. Líklega skýrist í kvöld hvort grundvöllur sé fyrir formlegum kjarasamningsviðræðum.

Óljóst hvernig samtalið gengur

Spurð hvort verkfallið sé farið að hafa áhrif á samninganefnd Samtaka atvinnulífsins segir Sólveig:

„Afstaða mín sem formanns, samninganefndar og félagsfólksins, sem greiddi atkvæði um verkfall, er sú að fólk fer í verkföll til þess að knýja á um betri samninga. Og við trúum því að okkar aðgerðir muni skila okkur betri niðurstöðum.“

Sólveig gefur lítið upp um gang viðræðna en segir mögulegt að frekari tíðinda sé að vænta í kvöld.

Mun ekki tjá sig um störf undanþágunefndar

„Við ætlum að halda áfram klukkan átta í kvöld. Samninganefnd fór í hlé og heldur áfram í kvöld. Undanþágunefndin fékk leyfi til þess að starfa hér áfram og við erum að sinna þeim störfum,“ segir Sólveig.

Framkvæmdastjóri N1 hefur talað um hnökra við framkvæmd undanþága. Hafið þið verið að leysa úr slíku?

„Ég veit ekki um neina hnökra sem hafa komið upp. Við erum að sinna þessu mikilvæga, stóra og flókna verkefni. En ég get ekki svarað fyrir hnökra sem hafa komið upp,“ sagði Sólveig.

Spurð hvort hún vildi gefa upp um undanþágur fyrir matvöruverslanir segist hún ekki munu tjá sig um störf undanþágunefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert