Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, kveðst ekki hafa gert sér grein fyrir því að tillögur samninganefnda Eflingar og Samtaka atvinnulífsins væru byggðar á „svo gjörólíkum forsendum.“ Þar af leiðandi var meiri vinna fyrir höndum á fundinum í dag en hann átti von á.
Hann segir viðræður þó formlega hafnar og komnar á þann stað að deiluaðilar séu farnir að ræða um launatöflur og önnur smáatriði „sem að raunverulega skipta máli til þess að ganga frá kjarasamningum.“ Tónninn í samninganefndum sé góður.
Fundi lauk á sjötta tímanum í dag í Karphúsinu og hefur nýr fundur verið boðaður klukkan 10 í fyrramálið.
Ástráður kveðst reyna að vera bjartsýnn á að deiluaðilar komist að samkomulagi um helgina en hann geti þó engu lofað um það. „Það langar engum að vera í verkföllum eða að þola verkföll,“ segir Ástráður.
Spurður hvort viðræður í dag hafi reynst erfiðari en hann hafi átt von á kveðst Ástráður hafa gert ráð fyrir því að þetta yrði erfitt.
„Það sem að ég kannski áttaði mig ekki á og var ekki alveg viss um fyrirfram var það að það væri þannig að tillögur aðilanna væru byggðar á svona gjörólíkum forsendum. Og þess vegna hefur verið talsvert meiri vinna heldur en ég átti von á að reyna að gera forsendurnar skiljanlegar hvor fyrir öðrum þannig að menn gætu allavega borið þetta saman á réttan hátt.“