Fundur hafinn á ný í Karphúsinu

Samningsaðilar mættu í Karphúsið á tíunda tímanum í dag. Gert …
Samningsaðilar mættu í Karphúsið á tíunda tímanum í dag. Gert er ráð fyrir þéttum fundarhöldum fram á kvöld og næstu daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsti fundur í eiginlegum kjaraviðræðum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins er hafinn í Karphúsinu. Framundan er þriggja daga vinnutörn en Efling samþykkti að fresta öllum verkfallsaðgerðum til miðnættis næstkomandi sunnudag.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari sagði sig sem kunnugt er frá deilunni á dögunum eftir að Landsréttur snéri úrskurði Héraðsdóms við um að ríkissáttasemjara væri heimilt með beinni aðför að fá afhenta kjörskrá Eflingar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra setti Ástráð Haraldsson héraðsdómara ríkissáttasemjara í kjaradeilunni.

Ástráður hefur bæði á fimmtudag og í gær leitt samtal milli deiluaðilanna sem leit að því að finna grundvöll til að farið væri í eiginlegar kjaraviðræður milli aðilanna.

Samtök atvinnulífsins gerðu það að kröfu sinni fyrir því að taka upp eiginlegar kjaraviðræður við Eflingu að stéttarfélagið frestaði öllum verkfallsaðgerðum sínum til að skapa andrými til vinnunnar, bæði svo Eflingarfélagar þyrftu ekki að sinna verkfallsvörslu hér og þar og taka fyrir undanþágur sem og að umbjóðendur SA þyrftu ekki að slökkva elda inni í eigin fyrirtækjum.

Eftir fundahöld frá morgni til kvölds í gær varð úr að Efling frestaði öllum verkfallsaðgerðum.

Þannig er hafin þriggja daga vinnutörn deiluaðila til að freista þess að koma á nýjum kjarasamningi milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert