Ólafur A. Pálsson
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, segir himin og haf á milli samningsaðila. Í gær hafi aðeins tekist að finna grundvöll til að hefja viðræður, enn sé öll samningadeilan eftir. Þetta kom fram í máli hans þegar hann ræddi við fjölmiðlamenn rétt fyrir klukkan tíu í morgun þegar fundir samningsaðila hófust í Karphúsinu.
Ástráður sagði að klukkan 10 myndu samningsaðilar byrja á að setjast niður og skipuleggja daginn og næstu daga. „Það verður mín tillaga að við munum reyna að vinna sæmilega þéttan dag í dag, svona fram eftir kvöldmat eða svo, og kannski svipað á morgun. Ef við verðum ekki búin þá þá höldum við áfram á sunnudaginn og höldum áfram eins og við höfum atorku til,“ sagði hann.
Spurður um stöðu deilunnar sagði Ástráður: „Það sem gert fram að þessu hefur bara snúið að því að finna grundvöll til þess að geta byrjað að tala saman. Nú er deilan öll eftir.“
„Jájá, himinn og haf,“ sagði Ástráður svo spurður hvort mikið væri eftir í deilunni.
Hann sagði að samningsaðilar ætluðu að fá að vera í friði út daginn, en hann sagði að hægt væri að fara yfir stöðuna með fjölmiðlum í lok dags. „En við viljum fá frið á meðan við stöndum í atinu.“