Vilhjálmur Árnason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, segir framkvæmd samgöngusáttmálans ekki vera að þróast í takt við þá stefnumörkun sem löggjafinn hafði lagt upp með. Hann telur vert að leggja meiri áherslu á eflingu Strætó til skamms tíma en útfærslu Borgarlínu.
Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi tekur í sama streng.
„Frá því að samgöngusáttmálinn var samþykktur hefur markmiðið með honum verið að greiða og hraða framkvæmdum og tryggja greiðari og fjölbreyttari samgöngur,“ segir Vilhjálmur sem telur þess vegna mikilvægt að huga að endurskoðun sáttmálans.
Segist hann enn fremur ætla að beita sér fyrir slíkri endurskoðun innan umhverfis- og samgöngunefndar.
Hann telji endurskoðunina ekki síst mikilvæga í ljósi núverandi ástands strætókerfisins sem hann segir vera komið í „öngstræti“.
Vilhjálmur segir mögulega lausn þess vanda vera að fjölga forgangsakreinum fyrir strætisvagna og betri ljósastýringu. Þá hefur hann áhyggjur af því að fyrstu áfangar borgarlínu séu með of þrönga notkunarskilyrði.
„Mér sýnist flestir vera sammála um það að það gangi ekki að einbeita sér að einhverri tíu til fimmtán ára framkvæmd með borgarlínu á meðan Strætó er nánast á hasunum akandi um á óumhverfisvænum bílum sem fólk vill ekki nota því hann er svo lengi á milli staða.“
Vilhjálmur segist ekki sammála Davíð Þorlákssyni framkvæmdastjóra Betri samgangna sem kom því á framfæri við mbl.is í dag að skilvirkni ljósastýringa hefði ekki verið sönnuð:
„Það var Alþingi sem sagði að ljósastýringin væri fremst og það var vegna þess að það getur bætt málin sem getur gefið okkur frekari upplýsingar um umferð og hjálpað okkur að taka næstu ákvarðanir. Þeir hafa ekki sjálfsvald um það hvort þeir breyti þeirri forgangsröðun.“
Hann segir það ekki eiga að breyta neinu þó það sé ekki sannað af ráðgjöfum Betri samgagna eða annarra að ljósastýringin nái fimmtungi betra flæði eða ögn minna.
Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks tekur í sama streng eins og áður sagði. Segir hún að samkvæmt Samtökum atvinnulífsins myndi 15% minnkun í umferðartöfum í höfuðborginni með ljósastýringu skila um 80 milljörðum í ábata fyrir fyrirtæki og heimili á líftíma fjárfestingarinnar.
Marta segir það ennfremur alvarlegt að Davíð saki hana um rangfærslur og segir hann þannig vera að afvegaleiða umræðuna sem embættismaður sem hún segir að sé alvarlegt.
Óumdeilt sé að uppreiknaður kostnaður vegna hluta samgöngusáttmálans hafi hækkað um 50 milljarða króna eða úr 120 milljörðum í 170 milljarða.
„Þetta fer a.m.k. í 180 milljarða þegar haft er í huga að ekki hefur verið uppfærður nema hluti sáttmálans, ekki 2., 3., 4., 5. og 6. áfangi Borgarlínu. Þetta er þá 50% hækkun á sáttmálanum á rúmum þremur árum,“ segir Marta í skriflegu svari við fullyrðingum Davíðs fyrr í dag.
Hún kveðst þá ósammála reikniaðferðum Davíðs á uppfærðum kostnaðaráætlunum og segir að engum lykilframkvæmdum í uppbyggingu Borgarlínu sé enn lokið.
„Ég nefni þar til sögunnar meðal annars mislæg gatnamót við Bústaðaveg og Reykjanesbraut og framkvæmdir við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut en þessum stóru framkvæmdum átti að ljúka 2021. Þetta á framkvæmdastjórinn að vita en þegir þunnu hljóði um.“
Vilhjálmur tekur undir gagnrýni Mörtu og segist hafa verið undrandi á ummælum Davíðs.
„Þau eru alla vega ekki í takti við samþykki Alþingis.“
Vilhjálmur segir sjálfstæðismenn hafa samþykkt samgöngusáttmálann til að tryggja að allir ferðamátar yrðu greiðari og að þeir samgöngumátar yrðu byggðir á skjótan og hagkvæman hátt
Finnst þér vinnan að því markmiði hafa tekist hingað til?
„Ég hef allavega ekki séð neitt sem sýnir það.“