Tíu bíla árekstur varð við Hveradali á Hellisheiði í dag þar sem fjórir slösuðust. Enginn slasaðist þó alvarlega og hafa þeir slösuðu verið fluttir af vettvangi og á sjúkrahús.
Lögreglan á Suðurlandi staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Að sögn lögreglunnar á Suðurlandi hefur hún ekki enn komist á vettvang vegna veðurs og því óljóst hvort að nákvæmlega tíu bílar hafi skollið saman en þeir gætu verið færri.
Lögreglan staðfestir þó að björgunarsveitir séu á leiðinni á svæðið frá báðum áttum til að koma fólki af Hellisheiðinni og niður í byggð.
„Við höfum ekki komist á vettvanginn sjálfan til að skoða hvort fólk sitji enn þá fast í bílunum eða hvort að björgunarsveitir séu komnar en fólk situr bara þarna í hrönnum fast, miklu fleiri en þessir tíu bílar.“
Eins og áður hefur verið greint frá var Hellisheiði og Þrengslum lokað fyrr í dag og er færð á svæðinu mjög slæm vegna veðurs.
Að sögn lögreglu hafði veginum verið lokað að einhverju leyti fyrir áreksturinn.