„Þetta hefur ekki verið mikið notað í gegnum tíðina, þessu hefur verið hótað mörgum sinnum en þegar á reynir þá verður alltaf minna úr þessu,“ segir Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, um beitingu verkbanns í kjaradeilum. Hún telur að um 35 ár séu síðan verkbönnunum var síðast beitt að einhverju ráði.
Stjórn Samtaka atvinnulífsins (SA) samþykkti einróma að leggja það til við aðildarfyrirtæki sín að setja allsherjarverkbann á Eflingu, en atkvæðagreiðsla hófst klukkan 11 í dag og stendur yfir til klukkan 16 á miðvikudag.
Verði verkbann samþykkt tekur það gildi á hádegi 2. mars. Þá mega rúmlega 20 þúsund manns sem starfa eftir kjarasamningum Eflingar og SA á almennum vinnumarkaði, ekki sækja vinnu og fá ekki greidd laun.
Lára segir að í raun sé um að ræða spegilmynd af verkfalli þar sem sömu reglur gildi nema með öfugum formerkjum.
Á vef ASÍ segir um framkvæmd verkbanns að meginskyldur aðila samkvæmt ráðningarsamningi falli niður þann tíma sem verkbann vari en taki gildi á ný þegar því ljúki. Engin vinna sé innt af hendi og laun ekki greidd.
„Verkbann er aðgerð sem atvinnurekandinn stjórnar og hann hefur forræði á útfærslunni að því marki sem lög heimila, alveg eins og með verkfall. Hann hlýtur að setja á laggirnar sína undanþágunefnd þar sem afgreiddar eru óskir um hvernig fara á með neyðartilfelli og allt það,“ segir Lára.
Það er skýrt að atvinnurekandi greiðir ekki laun í verkbanni, enda felur verkbann í sér að launafólki er meinað að koma til vinnu og því engin vinna innt af hendi.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að félagsfólk Eflingar fengi heldur ekki greitt úr vinnudeilusjóði félagsins, kæmi til verkbanns. Það kemur einnig fram á heimasíðu Eflingar að engir styrkir verði greiddir úr sjóðnum, enda sé verkbann ekki á ábyrgð félagsins.
Lára segir að mögulega þurfi að takast á um þessa ákvörðun formanns Eflingar síðar og bendir á að í reglum um vinnudeilusjóði annarra stéttarfélaga, til að mynda VR og RSÍ, sé áhersla lögð á að greitt sé úr vinnudeilusjóði bæði vegna verkfalls og verkbanns.
Ljóst er að komi til verkbanns mun það hafa töluvert meiri áhrif en verkföll Eflingarfólks, enda nær verkbannið til allra hópa sem heyra undir kjarasamninga Eflingar og SA, en ekki bara þá sem eru í verkfalli. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að um væri að ræða algjört neyðarúrræði. Tilgangurinn er að skapa þrýsting á Eflingu að ljúka yfirstandandi kjaraviðræðum, en uppúr þeim slitnaði í gær eftir að ljóst var að of langt var á milli deiluaðila.
„Í stað þess að Efling lami starfsemi tiltekinna fyrirtækja og atvinnugreina með verkföllum fárra félagsmanna munu SA með verkbanni leitast við að stjórna framkvæmd vinnustöðvana og auka þrýsting á Eflingu að ljúka yfirstandandi kjaraviðræðum,“ segir í yfirlýsingu SA vegna atkvæðagreiðslu um verkbann.
Segist SA ekki geta teygt sig lengra í átt til Eflingar í samningaviðræðum án þess að kollvarpa þeim kjarasamningum sem gerðir hafi verið við önnur stéttarfélög á almennum vinnumarkaði.