Tekur nýr kjarasamningur gildi á fimmtudag?

Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar.
Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel þetta vera rétt minn sem félagsmaður, og okkar allra sem félagsmenn, að taka afstöðu til miðlunartillögunar,“ segir Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, í samtali við mbl.is en hún hefur stefnt ASÍ, SA og íslenska ríkinu fyrir Félagsdómi og krefst þess að félagsmenn fái að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara.

Hall­dór Kr. Þor­steins­son, lögmaður Ólaf­ar, er samsinna Ólöfu og segir málið snúast um að félagsmenn Eflingar fái að greiða atkvæði um tillöguna þar sem hægt sé að túlka lögin á þann veg að hún taki í gildi í vikunni, án þess að félagsmenn fái neitt um hana að segja. 

Er blaðamaður ræddi við Halldór rétt eftir klukkan 12 hafði ASÍ neitað að taka við stefnu Ólafar en málið verður þingfest í Félagsdóm klukkan 15:20 í dag. SA og ríkislögmaður hafa tekið við stefnunni.   

„Þetta mál er einfaldlega höfðað til þess að láta reyna á það hvort að almennir félagsmenn í Eflingu fái ekki að greiða atkvæði um þessa miðlunartillögu,“ segir Halldór og nefnir að tillagan hafi aldrei verið afturkölluð né felld með atkvæðagreiðslu.

Líkindi við lög um kjarasamninga

Halldór segir að ýmsir hafi velt fyrir sér hvaða gildi tillagan hafi fyrst hún hefur ekki verið felld. 

Hann nefnir að ýmislegt í regluverki vísi einnig til þess sem gildir um samþykki kjarasamninga. „Er kjarasamningar eru samþykktir þá eru þeir bornir undir atkvæði félagsmanna og ef félagsmenn fella ekki samninginn þá er hann samþykktur,“ segir Halldór. 

Í lögum um miðlunartillögur segir að sáttasemjari hafi heimild til að leggja þær fram og hann mæli fyrir um það með hvaða hætti skuli kosið um tillöguna og fyrir hvaða tíma þeirri atkvæðagreiðslu skuli lokið. Í þessu tilviki átti Advania að sjá um atkvæðagreiðsluna. 

Efling hefur hins vegar ekki afhent Advania kjörskrá sína. 

„Þá er spurningin, hvaða gildi hefur miðlunartillagan þá? Er þá kominn á kjarasamningur vegna þess að miðlunartillagan var aldrei felld?“ spyr Halldór. 

„Í framkvæmd er það augljóslega ekki þannig, samanber að hér eru verkföll í gangi og það er ekki verið að borga út nein laun – hvorki afturvirkt né framvirkt – eftir þessari miðlunartillögu,“ segir hann og bætir við að skýra þurfi ástandið. 

„Lögin eru alveg skýr að ef þetta væri kjarasamningur þá væri kjarasamningur tekin í gildi. En af því þetta er miðlunartillaga, og hún hefur ekki verið felld, hvaða merkingu eigum við að leggja í hana?“

Fjórar vikur á fimmtudag

Halldór nefnir að stéttarfélög hafi fjórar vikur til að greiða atkvæði um kjarasamninga frá undirritun samninganna. Á fimmtudag, 23. febrúar, verða komnar fjórar vikur síðan ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillöguna. 

Hann bætir við að augljóslega sé litið til sömu laga um kjarasamninga er kemur að því hvernig skuli fella miðlunartillögu. 

Halldór segir því að hægt sé að meta það þannig að miðlunartillagan sé samþykkt þöglu samþykki beggja aðila á fimmtudag. 

Hægt að túlka á þrjá vegu

Halldór segir að hægt sé að túlka stöðuna á þrjá vegu. 

Í fyrsta lagi þá var tillagan ekki felld og því nýr kjarasamningur að verða gildur. 

Í öðru lagi að tillagan sé ónýt þar sem ekki hefur farið fram atkvæðagreiðsla. Sáttasemjari hefur þó aldrei afturkallað tillöguna. 

Í þriðja lagi flögri tillagan enn í loftinu og þá sé spurning hversu langan tíma aðilar hafi til að greiða atkvæði um hana áður en að hún telst bindandi. 

„Þetta mál sem við erum að höfða er meðal annars til þess að Ólöf Helga, eins og allir aðrir félagsmenn innan Eflingar og SA, fái tækifæri til þess að greiða atkvæði um tillöguna. Og þar með talið fái tækifæri til að fella hana ef að þeim líkar ekki við hana. Þeir hafa hins vegar ekki fengið neitt tækifæri til þess að fella þessa tillögu,“ segir Halldór og bætir við að ef lögin eru túlkuð svo að tillagan taki gildi á fimmtudag sé Efling að brjóta á stjórnarskrárvörðum rétti og 11 gr. mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi þar sem Efling hafi ekki gefið félagsmönnum kost á að greiða atkvæði.

Ólöf segir málið einmitt ekki snúast um hvort að hún vilji greiða með eða á móti tillögunni, heldur að hún og aðrir félagsmenn fái yfirhöfuð að greiða atkvæði. 

„Ég tel Eflingu bera skyldu til þess að gefa okkur tækifæri til þess að bæði kynna okkur miðlunartillöguna og gefa okkur tækifæri til að greiða atkvæði,“ segir Ólöf. 

Skýra myndina

Spurður hvort að stefnan og dómur Félagsdóms geti leitt til þess að Efling afhendi kjörskrá sína segir Halldór erfitt að spá um það.

Hann segir að úrskurður Landsréttar og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur hafi verið mjög óvænt niðurstaða og hafi hleypt túlkun laganna upp í öngþveiti. 

„Tilgangurinn með þessari stefnu, og vonandi málarekstri í kjölfarið, að skýra aðeins myndina.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert