Vinnumarkaðsmódelið á Íslandi er vanþroskað, að mati fjármálaráðherra, en til marks um það er m.a. hversu oft Alþingi hefur sett lög á aðgerðir á vinnumarkaði. Hann hefur áhyggjur af stöðunni en segir inngrip ríkisstjórnar í kjaradeiluna allra síðasta úrræðið.
Hann telur rétt að félagsfólk Eflingar fái að kjósa um miðlunartillöguna sem Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari lagði til á sínum tíma, og finnst miður að það hafi enn ekki gerst.
„Það eru vonbrigði að það sé ekki með frjálsum samningum hægt að leiða fram niðurstöðu. Það eru ekkert nema vonbrigði sem að geta lýst því hvernig manni líður með það. Og það er áhyggjuefni að það þurfi að koma til átaka á vinnumarkaði til þess að leiða fram niðurstöðu sem að hlýtur á endanum að gerast með einum eða öðrum hætti,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að loknum fundi ríkisstjórnar fyrr í dag.
Hvað þyrfti að gerast í þessari deilu til þess að ríkisstjórnin grípi inn í?
„Það á að vera allra síðasta úrræðið sem að reynir á og það er bara eins og sagan sýnir að þá skiptir Alþingi sér ekki af svona málum nema að það stafi einhver ógn af stöðunni fyrir einhverja þætti samfélagsins.
En það hversu oft Alþingi hefur sett lög á aðgerðir á vinnumarkaði er til vitnis um það hversu vanþroskað vinnumarkaðsmódelið er á Íslandi og allt þetta sem er að gerast í tengslum við miðlunartillögu sáttasemjara er sömuleiðis að draga fram mikla veikleika í íslensku vinnumarkaðsmódelinu sem að er sjálfstætt áhyggjuefni og þarf að ræða.“
Verkbann Samtaka atvinnulífsins tekur gildi 2. mars verði það samþykkt en þá verður félagsmönnum Eflingar óheimilt að mæta til vinnu þangað til það fellur úr gildi og fá þeir ekki greidd laun fyrir þann tíma.
Spurður hvort að ríkisstjórnin hafi skoðað það sérstaklega hvaða áhrif það muni hafa að þúsundir launþega verði án tekna í mögulega einhverja daga, segir Bjarni það hafa verið rætt um það á „almennum nótum“ á fundinum í dag. Engin formleg athugun sé þó hafin innan ráðuneyta.
„Það getur legið víða að reyna að leggja mat á það og ég held að ráðuneytin og stofnanir þeirra muni vaka yfir stöðunni dag frá degi.“