Fréttir af skýrslutökum sakborninganna fjögurra í stóra kókaínmálinu verða orðnar nærri sjö vikna gamlar er fjölmiðlum verður heimilt að birta þær.
Aðalmeðferð hófst 19. janúar er skýrslutökur yfir sakborningunum fóru fram en dómari Héraðsdóms Reykjavíkur bannaði fjölmiðlum að greina frá skýrslutökunum fyrr en þeim yrði að fullu lokið.
Nú er ljóst að þeim lýkur 6. mars en þá verða teknar skýrslur af hollenskum lögreglumönnum og sérfræðingum, en lögreglan þar í landi lagði hald á kókaínið sem var flutt með timbursendingu frá Brasilíu.
Anna Barbara Andradóttir, saksóknari í málinu, segir í samtali við mbl.is að óvíst sé hvernig skýrslutökurnar fari fram en aðalmeðferð hefur tafist vegna þess að því hefur seinkað að skýrsla hafi verið tekin af Hollendingunum.
Aðalmeðferð málsins lýkur svo formlega 8. mars en mennirnir fjórir voru handteknir í byrjun ágúst á síðasta ári.