„Það er samdóma álit okkar að staðan er mjög alvarleg. En ég legg mjög ríka áherslu á að þessi deila er á milli aðila vinnumarkaðarins og ábyrgð þeirra er að mjög mikil að ná samningum,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi fyrr í dag.
Vísaði hann þar til stöðunnar í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins sem er í algjörum hnút eftir að upp úr viðræðum slitnaði á sunnudag. Nú stendur yfir atkvæðagreiðsla hjá aðildarfélögum SA um að setja allsherjarverkbann á Eflingu og í gærkvöldi samþykktu félagsmenn Eflingar sem starfa á hótelum, hjá öryggisgæslu- og ræstingarfyrirtækjum að fara í verkfall. Hefjast þau 28. febrúar næstkomandi en verkbann hefst þann 2. mars, verði það samþykkt.
Það kom ekki til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar að gripið yrði inn í deiluna með einhverjum hætti, að sögn Guðmundar.
„Deilan er í höndum samningsaðila. Við ræddum stöðuna, við teljum hana mjög alvarlega og ég legg ríka áherslu á að aðilar vinnumarkaðarins taki sér taki og semji.“
Hefur þú trú á því að það takist?
„Það er þeirra hlutverk að leita leiða til þess. Það tókst ekki um helgina en þau þurfa að halda áfram með settan ríkissáttasemjara sér við hlið. Það er sú krafa sem landsmenn hljóta að gera til deiluaðila.“
Spurður hvort stórar yfirlýsingar á báða bóga af hálfu deiluaðila, dragi ekki úr líkum á hægt verði að leysa deiluna við samningaborðið, segir Guðmundur:
„Mér finnst óábyrgt af deiluaðilum hvernig þeir í rauninni tala hvor við annan. Mér finnst það ekki ábyrgt í ljósi þess að þau eiga að sitja og semja. Það eru nú mín skilaboð en ég er ekki aðili að samningsborðinu. Það er á þeirra ábyrgð að við erum í þessum hnút sem núna er.“
Þrátt fyrir að ekki hafi verið rætt að grípa inn í deiluna segir Guðmundur fylgst náið með stöðunni og málið verði rætt áfram innan ríkisstjórnarinnar.
Hann bendir á að það sé í höndum setts ríkissáttasemjara að taka ákvörðun um það hvort úrskurði Landsréttar, um að Efling þurfi ekki að afhenda ríkissáttsemjara kjörgögn svo hægt sé að greiða atkvæði um miðlunartillögu ríkissáttasemjara, verði áfrýjað til Hæstaréttar. En áfrýjunarfrestur er ekki útrunninn.
Vinnulöggjöfin þykir í ákveðnu uppnámi eftir úrskurðinn og segir Guðmundur að ekki verði hjá því komist að að fara ofan í saumana á vinnulöggjöfinni vegna úrskurðarins.
„Eins og staðan er í dag þá er hægt að leggja fram miðlunartillögu, en það er erfiðara að láta kjósa um hana. Þar með er þetta verkfæri ríkissáttasemjara í ákveðnu uppnámi. Ég held við getum öll verið sammála um að við það verði ekki unað.“
Komi til verkbanns, hefur það áhrif á rúmlega 20 þúsund félagsmenn Eflingar sem starfa undir kjarasamningum við SA. Fólk má þá ekki mæta til vinnu og fær ekki greidd laun. Fyrir liggur að það mun hafa gríðarleg áhrif á samfélagið allt og Guðmundur segir það hlutverk ríkisstjórnarinnar að fylgjast með öryggi fólks.
„Það er eitt af því sem við vorum að ræða í morgun hvaða áhrif þetta getur haft á mismunandi kima samfélagsins. Allt frá skólum, velferðarþjónustunni, bæði heilbrigðis- og félagsþjónustu og öðrum öryggismálum. Það er nokkuð sem ríkisstjórnin er sérstaklega með augun á.“