Segir ekki rétt að verkfallsboðun sé ólögmæt

Sólveig Anna segir það hafa verið meðvitaða ákvörðun að skila …
Sólveig Anna segir það hafa verið meðvitaða ákvörðun að skila ekki inn tilgreindum gögnum. Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að það hafi verið meðvituð ákvörðun að senda ekki inn tilgreind gögn um verkfallsboðun til ríkissáttasemjara og SA í gær. Ákveðið hafi verið að bíða þar til atkvæðagreiðslu um verkbann hjá SA lýkur. Hún hafnar því að verkfallsboðunin sé ólögmæt. 

„Ég tók ákvörðun um að bíða með þessar (verkfalls)boðanir þar til niðurstaða var komin frá SA um verkbönn,“ segir Sólveig Anna. Hún segir að Efling hyggist funda í kvöld um stöðuna eftir að niðurstaðan hjá SA liggur fyrir. „Við teljum mjög líklegt að verkbönn verði samþykkt og verkföllin sem eru fyrirhuguð eiga að hefjast á svipuðum tíma,“ segir Sólveig Anna.

Hún segir að Efling telji það ekki standast að verkfallsboðunin sé ólögmæt þrátt fyrir að gögn hafi ekki borist í tíma að mati SA og ríkissáttasemjara. Segir í tilkynningu frá SA að kjósa þurfi að nýju um verkfallið en Sólveig hafnar því. 

„Það er ekki rétt að þetta sé ólögmæt verkfallsboðun,“ segir Sólveig Anna. Segir hún að Efling sendi gögnin sem um ræðir á morgun ef samninganefnd Eflingar kemst að þeirri niðurstöðu á fundi sínum í kvöld . 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert