Viðar Guðjónsson
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir að fyrirspurnir hafi borist frá fyrirtækjum um að gera samning við stéttarfélagið sem sé samhljóða síðasta tilboði Eflingar til Samtaka atvinnulífsins frá 8. janúar síðastliðnum.
„Þetta eru nokkur fyrirtæki sem hafa sett sig í samband við okkur og viljað semja við okkur,“ segir Sólveig Anna.
Ef þau hafa viljað ganga að ykkar skilmálum, af hverju hafið þið ekki samþykkt það?
„Við höfum verið upptekin af okkar risastóra verkefni sem er að gera samning við Samtök atvinnulífsins og höfum viljað einbeita okkur að því. Við auðvitað töldum að við værum að fara að gera kjarasamning í góðri trú,“ segir Sólveig Anna.
Hún segir að fyrirtækin hafi viljað byggja á tilboði Eflingar sem stéttarfélagið birti SA 8. janúar síðastliðinn.
Hún segist ekki geta tjáð sig um það til hve margir starfsmenn eru að baki þessum fyrirtækjum en í heild eru 21 þúsund manns í Eflingu.