„Ég er mikið feld-liggjandi“

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari.
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, segir stöðu kjaradeilunnar á milli SA og Eflingar óbreytta, þrátt fyrir það sem kalla mætti óhefðbundnar viðræður við vægast sagt óhefðbundið samningsborð í dag – þættinum Pallborðið á vef Vísis

Tókust þar á þau Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, sem áður. 

Stakk Halldór Benjamín upp á því að þau myndu bæði aflýsa aðgerðum sinna félaga. Sagðist þá Sólveig Anna tilbúin að fresta öllum aðgerðum ef SA kæmi að borðinu með það fyrir augum að gera „Eflingarsamning fyrir Eflingarfólk“.

„Það er algjörlega óbreytt staða, það er bara þannig,“ segir Ástráður í samtali við mbl.is.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ sagðist í dag þeirrar skoðunar að ný miðlunartillaga gæti verið lausnin og var greint frá því í kvöldfréttum RÚV að ríkissáttasemjari íhugaði það.

Ætlar að halda áfram samtölum 

Spurður hvort hann lægi undir feldi svarar Ástráður:

„Jú, ég ligg linnulaust undir feldum. Ég er mikið feld-liggjandi, en hef frá engu að segja í bili.“

Er einhver von á ákvörðun eða fregnum yfir helgina?

„Ég mun halda áfram samtölum við fólkið og gera það sem í mínu valdi stendur til þess að ná þessu saman.“

Lenya Rún Taha Karim, þingmaður Pírata, velti því upp í hálfkæringi á Twitter í dag hvort Heimir Már Pétursson, fréttamaður Stöðvar 2 sem stýrði þættinum Pallborðið, ætti hreinlega að taka við starfi ríkissáttasemjara í kjölfar þáttarins.

Inntur álits um þá hugmynd svarar Ástráður glettinn: „Það er bara brilliant hugmynd. Heimir Már hefur lengi vel verið minn maður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert