„Eigum enga möguleika í veröld Pútíns“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ræðir við blaðamann mbl.is.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ræðir við blaðamann mbl.is. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við eigum enga möguleika í veröld Pútíns og þess vegna þarf niðurstaðan af þessu ömurlega, tilgangslausa og ógeðfellda stríði að vera sú að alþjóðakerfið lifi það af og þau gildi sem verið er að ráðast á lifi það af.“

Þetta segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra er blaðamaður mbl.is ræddi við hana um framtíðarhorfur stríðsins í Úkraínu og stuðning Íslands við Kænugarð.

Ár er liðið frá því að rússneskar hersveitir réðust inn í sjálfstæða og fullvalda Úkraínu þar sem þær hafa síðan heimt líf tug þúsunda hermanna og óbreyttra borgara. Borgir og bæir hafa verið lagðar í rúst og fjölskyldur flúið heimili sín í mörg þúsunda tali. 

Mikil þekking sem fylgir Úkraínumönnum

Á undanförnum 12 mánuðum hefur fjöldi flóttamanna komið til Íslands frá Úkraínu. Að mati Þórdísar Kolbrúnar hefur heilt yfir gengið vel að taka á móti Úkraínumönnum þó ýmislegt megi betur fara.

 „Þetta er auðvitað verkefni sem að koma óvænt til okkar eins og allra annarra og verkefnið sem er auðvitað ekki eins þungt erfitt og sársaukafullt eins og fyrir þá sem þurftu að flýja heimili sín og koma hingað. En við höfum auðvitað þurft að hafa hraðar hendur og gera okkar besta til að taka hlýlega á móti þeim og keyra upp kerfi sem að tryggir það að fólk fái svör hratt og fái þjónustu sem að það á rétt á.“

Ísland gæti þó staðið sig betur í að viðurkenna menntun og reynslu fólks sem hingað kemur, að sögn Þórdísar Kolbrúnar.

„Við erum einfaldlega ekki góð í því að viðurkenna menntun og réttindi fólks sem að kemur til Íslands. Hvorki þeirra né þeirra sem flytja hingað. Í þessum hópi fólks frá Úkraínu er gríðarlega mikil þekking sem að við sem samfélag ættum að sjá til þess að þau fái mjög fljótt viðurkenningu á því til þess að þau geti notið þeirra krafta og við getum fengið að njóta þeirra krafta sömuleiðis.“

Skýr um að stuðningur mun sannarlega kosta sitt

Fyrir ári töldu margir að stríðinu myndi ljúka með sigri Rússlands og að það tæki einungis örfáa daga. Önnur staða er þó uppi á teningnum í dag en stríðið, sem átti að ljúka á 10 dögum, gæti nú varað í nokkur ár með tilheyrandi mannfalli og skemmdarverkum. 

Íslensk stjórnvöld hafa tekið virkan þátt í að styðja við Úkraínu undanfarna mánuði og munu halda því áfram um ókomna tíð.

„Okkar stuðningur hefur fram til þessa og mun áfram taka mið af þörfum Úkraínu, hvort sá stuðningur muni breytast það fer í raun eftir hvernig málið þróast og hvað úkraínsk stjórnvöld kalla helst eftir,“ segir Þórdís Kolbrún.

Hún segir að íslensk stjórnvöld þurfi að vera skýr gagnvart almenningi um að stuðningur við Úkraínu muni sannarlega kosta sitt. Þjóðir um allan heim hafi gert gríðarlega mikið til að hjálpa og að Ísland vilji sannarlega ekki vera neinn eftirbátur í þeim efnum.

Pútín hætti ekki takist honum ætlunarverk sitt

Þjóðarleiðtogar á Vesturlöndunum hafa talað fyrir því að gætilega þurfi að fara í vopnasendingum til Úkraínu. Í kjölfar þess að stjórnvöld í Þýskalandi ákváðu að senda 14 Leop­ard 2 A6-skriðdreka til Úkraínu, hamraði Olaf Scholz, kansl­ari Þýska­lands, á því að stríð Úkraínu við Rússa mætti ekki þróast út í átök við NATO. Hefur hann síðan þá þvertekið fyrir að Þjóðverjar sendi Úkraínumönnum orrustuþotur til að berjast.

Þórdís Kolbrún tekur undir mikilvægi þess að sýna stuðning í „réttum skrefum“ og að mikil ábyrgð hvíli á þjóðarleiðtogum stærstu ríkjanna í þeim efnum. Það sem skipti þó mestu máli sé að Vesturlöndin geri það sem þarf til þess að Úkraína vinni stríðið enda sé Pútín ekki að fara að láta staðar numið takist honum ætlunarverk sitt. 

„Þetta snýst ekki um það hvort að við séum tilbúin að fórna Úkraínu og þar með þá fórna grundvallarreglum alþjóðalaga og þar með hverfi málið. Rússland hefur miklar meiningar um það hvað er þeirra og það er ekki einangrað við Úkraínu. Rússland réðst inn í Georgíu 2008, réðst fyrst inn í Úkraínu 2014.

Þeir eru með mikil afskipti og mjög óeðlilega stöðu inn í Moldóvu. Margir innan Rússlands líta svo á að Eystrasaltsríkin séu í raun ekki sjálfstæð. Eyrstasaltsríkin eru hluti af NATO, þannig að það sem mér finnst skipta mestu máli er að við gerum það sem þarf til þess að Úkraína vinni stríðið.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert