Rostungurinn stressaður vegna ágangs fólks

Rostungurinn er löngu orðinn stressaður þegar hann er farinn að …
Rostungurinn er löngu orðinn stressaður þegar hann er farinn að hvæsa, að því er segir á Facebook-síðunni Dýravakt Matvælastofnunar. Ljósmynd/Árni Gunnarsson

Matvælastofnun ráðleggur fólki að fara ekki undir neinum kringumstæðum nær rostungnum á Breiðdalsvík en 20 metrum og allra helst að halda fjarlægð sem nemur 50-100 metrum.

Bæjarbúi á Breiðdalsvík sagði í samtali við mbl.is í dag að dýrið hafi lítið kippt sér upp við það að fólk hafi verið að skoða sig, en það hafi hvæst þegar fólk var í um þriggja metra fjarlægð frá því.

Á Facebook-síðunni Dýravakt Matvælastofnunar segir að öll nálgun nær en 50 metrum stressi dýrið og allt sem er nær en sem nemur 20 metrum stressi dýrið mjög mikið og geti haft verulega neikvæð áhrif á heilsu þess og líðan.

„Þegar dýrið er farið að hvæsa er það löngu orðið mjög stressað,“ segir í tilkynningunni á Facebook.

Þá er bent á það að þó rostungar virðist vera svifasein dýr þá geti þeir hreyft sig hratt og valdið miklum skaða á fólki og dýrum með öflugum höggtönnum, ef þeim finnst þeim ógnað. Þá geta rostungar borið smitefni sem geta verið varasöm fyrir fólk.

Fólk sýni tillitsemi

Varað er við að fara allt of nálægt dýrinu því það sé bæði hættulegt viðkomandi og slæmt fyrir dýrið.

„Biðlar Matvælastofnun fólk um að sýna tillitssemi við dýrið.“

Dýralæknir hefur samkvæmt beiðni Matvælastofnunar farið og metið rostunginn, að því er segir á Dýravakt Matvælastofnunar.

Virðist hann ekki vera slasaður og segir í færslu Dýravaktarinnar að hann gæti líka verið að hvíla sig eftir langt ferðalag og átök.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert