„Seðlabankastjóri ætti að líta á olíufurstana“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir mikilvægt að samningsaðilar setjist niður, ekki í dag, heldur helst í gær og nái samningum. Hann bendir sömuleiðis á mikilvægi þess að fyrirtæki í landinu og nefnir þar sérstaklega olíufélögin, taki ábyrgð á stöðu í efnahagslífinu.

Hann segir stöðuna sem komna er upp í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins skelfilega og hinn almenni félagsmaður Eflingar líði fyrir það.

„Það er mjög mikilvægt að samningsaðilar setjist niður, ekki í dag, heldur hefðu þeir þurft að gera það í gær og finna lausn á þessu máli, vegna þess að það er hinn almenni félagsmaður Eflingar sem er að líða fyrir þetta og þau hafa orðið af launahækkunum núna í fjóra mánuði. Það skiptir gríðarlega miklu máli þegar allt er að hækka í íslensku samfélagi að fólk fái launahækkanir hratt og vel og þar bera samningsaðilar mikla ábyrgð á að finna lausn á því máli.“

Mikilvægt að tryggja lífsviðurværi viðkvæmustu hópanna

Aðspurður út í ákvörðun Eflingar að ætla ekki að greiða félagsmönnum í verkbanni úr vinnudeilusjóði segir Vilhjálmur að mikilvægt sé að horfa til vissra hópa og meta fjárhagslega stöðu þeirra.

Þar nefnir hann einstæðar mæður sem ekki hafa aðra fyrirvinnu sem dæmi og segir mikilvægt að tryggja þeim eitthvað lífsviðurværi.

Ósáttur við álagningu olíufélaganna

Vilhjálmur segir sömuleiðis að mikilvægt sé að fyrirtækin í landinu taki ábyrgð á stöðunni í efnahagslífinu.

Hann bendir á að olíufélögin hafi ekki skilað lækkunum á heimsmarkaðsverði til neytenda, sem hafi gert það að verkum að álagning á eldsneyti hafi hækkað um 133%. Vilhjálmur segir að lífeyrisjóðirnir eigi að hugsa sinn gang og selja hlutabréfin sín til að svara þessari græðgisvæðingu sem þarna á sér stað.

Jafnframt segir Vilhjálmur: „Ég held að Seðlabankastjóri ætti að líta á olíufurstana og skoða hvaða áhrif þetta hefur haft á verðbólguna síðustu 12 mánuði“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert