„Oftast er skólaforðun vandi foreldra“

Austurlandslíkanið hefur skilað góðum árangri og barnarverndarmálum hefur fækkað mikið.
Austurlandslíkanið hefur skilað góðum árangri og barnarverndarmálum hefur fækkað mikið.

„Oft­ast er skóla­forðun vandi for­eldra. Vegna þess að for­eldra skort­ir inn­sýn í þarf­ir barns­ins til að það geti stundað skól­ann með góðum hætti og búið við reglu og ramma sem styður við seiglu. Það er því miður langoft­ast þannig,“ seg­ir Júlía Sæ­munds­dótt­ir, fé­lags­mála­stjóri Múlaþings.

Hún stuðlaði að inn­leiðingu Aust­ur­lands­lík­ans­ins svo­kallaða, sem not­ast hef­ur verið við á Aust­ur­landi frá ár­inu 2018, til að byggja und­ir vel­ferð barna. Með því hef­ur náðst góður ár­ang­ur í for­vörn­um gegn skóla­forðun og hef­ur al­var­leg­um barna­vernd­ar­til­fell­um fækkað veru­lega. Um er að ræða sam­starfs­vett­vang þeirra sem koma að mál­efn­um fjöl­skyldna í Múlaþingi, Fljóts­dals­hreppi og Vopnafirði, sem fé­lagsþjón­usta Múlaþings hef­ur um­sjón með.

Líkanið er unnið eft­ir danskri fyr­ir­mynd sem kall­ast Hern­ing-mód­elið, sem geng­ur út á að grípa snemma inn í vanda barna og fjöl­skyldna og reyna þannig að koma í veg fyr­ir að vand­inn vaxi þeim yfir höfuð og verði krón­ísk­ur eða bitni á þroska þeirra og vel­ferð. Sér­fræðing­ar fé­lagsþjón­ustu, heil­brigðisþjón­ustu og skólaþjón­ustu, þar á meðal skóla­sál­fræðing­ar og skóla­hjúkr­un­ar­fræðing­ar, vinna sam­an í teymi með skóla­starfs­fólki, for­eldr­um og eft­ir at­vik­um barni, að því að lausn vand­ans.

Þarf ekki al­var­leg­an vanda til að fá stuðning

Aust­ur­lands­líkanið er í raun ákveðið frum­kvöðlastarf sem litið var til við gerð far­sæld­ar­lag­anna, sem tóku gildi árið 2021 og eiga að stuðla að far­sæld barna. Meg­in­mark­mið lag­anna er að börn og for­eldr­ar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjón­ustu við hæfi án hindr­ana.

Júlía bend­ir á að í gamla verklag­inu, fyr­ir tíma far­sæld­ar­lag­anna, hafi erfið vanda­mál, eins og al­var­leg skóla­forðun, oft ekki komið til kasta fé­lagsþjón­ust­unn­ar fyrr en alltof seint. For­eldr­ar hafi því ekki fengið nauðsyn­lega þjón­ustu og ráðlegg­ing­ar í tíma til að tak­ast á við skóla­forðun og vand­inn því stund­um undið upp á sig með al­var­leg­um af­leiðing­um fyr­ir þroska og nám barns­ins.

„Það er ómet­an­legt hversu þjóðhags­lega arðbært það er að grípa snemma inn í vanda og fyr­ir­byggja frek­ari skaða,“ seg­ir Júlía. Þá skipti líka miklu máli að for­eldr­ar viður­kenni vand­ann og séu til­bún­ir að þiggja þá hjálp sem býðst.

Þess vegna er líka svo mik­il­vægt að for­eldr­ar leiti sér aðstoðar. Það er svo sjálfsagt. Nú eiga all­ir rétt á því að fá ráðgjöf og stuðning án hindr­ana. Þú þarft ekk­ert að vera með al­var­leg­an vanda til að geta beðið um upp­eld­is­ráðgjöf og stuðning. Það er svo eðli­legt og við sem erum for­eldr­ar vit­um það að við lend­um öll í ein­hverj­um vanda með börn­in okk­ar í for­eldra­hlut­verk­inu og þurf­um að leita okk­ur ráðgjaf­ar og stuðnings. Það er ekk­ert til að skamm­ast sín fyr­ir. Fólk á bara að leita sér ráðgjaf­ar áður en það kemst inn í ein­hvern víta­hring og nær ekki að höndla aðstæður.“

Mikl­ar áhyggj­ur ef fjar­vera er meiri en 18 dag­ar

Skóla­forðun er meðvituð eða ómeðvituð hegðun sem barn eða ung­ling­ur sýn­ir þegar mæta á í skól­ann. Hegðunin birt­ist í erfiðleik­um með að sækja skóla hvort sem um er að ræða heil­an skóla­dag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma. Árið 2019 sýndi rann­sókn Vel­ferðar­vakt­ar­inn­ar að gera mætti ráð fyr­ir að 2,2 pró­sent grunn­skóla­nema, eða um eitt þúsund börn, glími við skóla­forðun hér á landi, sem rekja má til kvíða, þung­lynd­is eða erfiðra aðstæðna heima fyr­ir.

 Ákveðin viðmið eru fyr­ir það hvað telst ásætt­an­leg fjar­vera nem­enda frá skóla á hverju skóla­ári og þegar mörk­un­um er náð er strax gripið inn í inn­an Aust­ur­lands­lík­ans­ins.

„Við fylgj­umst með fjar­vist­um barna í skóla og horf­um til landsátaks sem gert var í Banda­ríkj­un­um þar sem farið var að taka á skóla­forðun. Það er miðað við að 9 daga fjar­vera, eða um það bil 5 pró­sent, miðað við 180 daga skóla­ár, sé ásætt­an­leg. En ef hún er kom­in upp í meira en það þá er það farið að valda áhyggj­um. 18 daga fjar­vist­ir á skóla­ári eða meira, þá er ástæða til að hafa mikl­ar áhyggj­ur.“

Regl­an er að hafa sam­band við for­eldra og nem­anda þegar þess­um mörk­um er náð. Við 5 pró­sent fjar­vist­ir þá hring­ir um­sjón­ar­kenn­ari heim og ræðir við for­eldra um hvaða af­leiðing­ar það get­ur haft fyr­ir barnið og um úr­bæt­ur. Séu fjar­vist­ir orðnar 10 pró­sent, eða allt að 18 dag­ar, þá eru for­eldr­ar og barn kölluð á fund og gerð áætl­un um betri mæt­ingu.

Al­var­legt að taka barn í langt vetr­ar­frí

Aðstæður eru þó ekki alltaf þannig að þess sé þörf, til dæm­is ef ástæða fjar­vista er vetr­ar­frí með fjöl­skyld­unni, en Júlía bend­ir á að það sé ekki æski­legt að fara með barn í tvær vik­ur til út­landa á skóla­tíma.

„Það er eitt af því sem við erum að reyna að sporna gegn og tala um að skóli sé vinna sem ber að sinna. Það get­ur verið mjög al­var­legt að taka barn í langvar­andi vetr­ar­frí. Rann­sókn­ir sýna að börn helt­ast ekki bara úr lest­inni náms­lega ef það er ekki vel haldið á spöðunum, held­ur helt­ast þau líka úr menn­ing­unni í skól­an­um og geta orðið illa úti fé­lags­lega og tapað þræðinum í skól­an­um hvað varðar fé­lags­lega stöðu. Svo maður tali nú ekki um langvar­andi áhrif skóla­forðunar þegar hún er langt geng­in. Það er erfið staða að standa í sem barn og for­eldri og oft­ast mik­il vinna að ná góðri stöðu aft­ur fyr­ir barnið, bæði náms­lega og fé­lags­lega.

Þegar þess er þörf er gerð áætl­un um úr­bæt­ur og hún er yf­ir­leitt til skamms tíma til að sjá að hún gangi. Hún miðast þá líka við náms­lega og fé­lags­lega stöðu barns­ins. Gangi þær áætlan­ir ekki eft­ir á þrem­ur til fjór­um vik­um þá er mál­inu vísað í líkanið, þar sem er unnið sam­kvæmt far­sæld­ar­lög­un­um núna,“ seg­ir Júlía.

Júlía Sæmundsdóttir er félagsmálastjóri Múlaþings.
Júlía Sæ­munds­dótt­ir er fé­lags­mála­stjóri Múlaþings.

„Tregðan á þessu hér áður fyrr var að það þurfti að til­kynna til barna­vernd­ar og þá voru mál­in oft mikið lengra geng­in held­ur en ein­hverj­ir 18 eða 20 daga fjar­vist­ir,“ bæt­ir hún við. Tregða hafi verið við að til­kynna langvar­andi fjar­vist­ir frá skóla til barna­vernd­ar, þar sem barna­vernd­ar­mál geti verið mikið inn­grip í líf fólks og því oft reynt að leysa vand­ann lengi inn­an skól­ans áður en til sam­hæfðra aðgerða er gripið.

„En þegar hægt er að vinna mál­in á væg­ari hátt, án þess að það sé kannski eitt­hvað boðvald eða þving­unar­úr­ræði sem stund­um þarf að grípa til inn­an barna­vernd­ar, þá er það auðvitað já­kvæðara. Þetta bygg­ir á vald­efl­ingu og sam­tali við málsaðila, að þeir hafi sjálf­ir eitt­hvað um það að segja hvernig á að leysa vand­ann. Auk þess eru for­eldr­ar sér­fræðing­ar í sín­um börn­um og þekkja vanda þeirra og sinn best sjálf­ir. Inn­an teym­is Aust­ur­lands­lík­ans­ins veit­um við líka oft stuðning og úrræði sem eru yf­ir­leitt ekki veitt börn­um og fjöl­skyld­um nema það sé barna­vernd­ar­mál í gangi eða á grund­velli fötl­un­ar eða ein­hverra stærri mála,“ út­skýr­ir Júlía.

Vilja ná til þess­ara barna í leik­skól­an­um

For­varn­ar­starfið hefst í raun strax á leik­skóla­stig­inu og seg­ir hún mikla áherslu lagða á að ná til barn­anna og for­eldra þeirra áður en þau koma upp í grunn­skól­ana.

„Þar sjá­um við oft for­eldra sem eru að kljást við sjálfa sig og eiga erfitt með að halda utan um rútínu og ramma sem öll börn þurfa, og þurfa stuðning. Við vilj­um fá ábend­ing­ar um þess­ar fjöl­skyld­ur og geta komið inn fyrr með snemm­tæk­um hætti og styðja þessa for­eldra til að efla seiglu, góða mæt­ingu og rútínu í lífi barna sinna og sjálfr­ar sín, vegna þess að for­eldr­ar eru líka fyr­ir­mynd­ir.

Við sjá­um það oft sem höf­um verið lengi í barna­vernd og höf­um unnið í leik- og grunn­skól­um að börn sem eiga svona for­eldra þau verða oft skóla­forðun­ar­börn seinna. Stund­um verður vand­inn ekki al­var­leg­ur fyrr en á ung­lings­aldri og þá er vand­inn orðinn krón­ísk­ur og ill­viðráðan­leg­ur. Það að grípa snemma inn í á meðan börn­in eru ung og for­eldr­arn­ir eru að fóta sig í for­eldra­hlut­verk­inu, get­ur breytt gríðarlega miklu.“

For­eldr­arn­ir ná ekki að mæta þörf­um barns­ins 

Að sögn Júlíu eru vissu­lega til marg­ar út­gáf­ur af skóla­forðun og það get­ur verið ein­hverj­ir per­sónu­leg­ir þætt­ir í lífi barns­ins valdi því að barnið vill ekki eða á erfitt með að mæta í skól­ann.

„En oft­ast er það þannig að for­eldr­ar eru ekki að sinna upp­eld­is­skyld­um sín­um rétt eða þá að þeir ná ekki að mæta þörf­um barns­ins á rétt­an hátt. Til að mynda þegar barn er með forðun­ar­hegðun eða fæl­ist að mæta í skóla eða að tak­ast á við áskor­an­ir dag­legs lífs, heima­lær­dóm, skyld­ur og fleira, þá er það kannski ekki vond­ur ásetn­ing­ur hjá for­eldri að tak­ast ekki á við þetta og ögra ekki barn­inu til að tak­ast á við þessa hluti, styrkja barnið og efla seiglu þess, held­ur að pakka því í bóm­ull, vor­kenna og leyfa því að vera bara heima. Það er ekki það að for­eldrið sé að hugsa um að skaða barnið sitt til fram­búðar. Það er gert af ást og vel­vilja og um­hyggju fyr­ir barn­inu, en hugs­un­in er kannski ekki rétt og þegar for­eldr­inu er leitt fyr­ir sjón­ir hvaða af­leiðing­ar það hef­ur fyr­ir barnið þá kannski breyt­ast hlut­irn­ir.“

Stund­um hafa þess­ir for­eldr­ar sjálf­ir glímt við fé­lags­lega erfiðleika, að sögn Júlíu, og stund­um er verið að rjúfa fé­lags­leg­an arf.

„Það svo mik­il­vægt að geta breytt þess­um fé­lags­lega arfi og rofið þenn­an víta­hring þar sem við náum að kippa einni kyn­slóð frá því að verða, jafn­vel í verstu til­fell­um, van­virk­ir ein­stak­ling­ar í sam­fé­lag­inu, sem kost­ar gríðarlega fyr­ir ein­stak­ling­inn og sam­fé­lagið í heild. Svo eiga þess­ir ein­stak­ling­ar börn og eru að velta þess­um fé­lags­lega vanda yfir á næstu kyn­slóð. Það gríðarleg­ur ávinn­ing­ur af því að rjúfa þenn­an fé­lags­lega arf, að breyta þessu mynstri. Fjár­fest­ing í börn­um skil­ar sér marg­falt fyr­ir sam­fé­lagið.“

Sjá ekki alltaf hvað er best fyr­ir barnið

Lögð er áhersla á að styðja for­eldra sem standa illa bæði fé­lags­lega og fjár­hags­lega og eru börn þeirra meðal ann­ars studd til íþrótta- og tóm­stundaiðkun­ar.

„Eins erum við með tölu­vert marga for­eldra sem myndu upp­fylla grein­ing­ar­skil­merki þess að telj­ast vera fatlaðir og hefðu í gamla verklag­inu kannski ekki getað verið með börn­in sín. Þau hefðu verið vistuð utan heim­il­is. En með mikl­um stuðningi inni á heim­ili, sem er auðvitað gríðarleg vinna og kostnaður, þá má styðja þessa for­eldra til að hafa börn­in sín heima. Það má gera með stuðnings­fjöl­skyld­um og fleira til að hvíla for­eldr­ana. Og börn­in upp­lifa þá líka  góð upp­eld­is­skil­yrði hjá stuðnings­fjöl­skyld­unni. Við þurf­um alltaf að horfa á hags­muni barns­ins og hags­mun­ir barns­ins og for­eldra eiga alltaf að fara sam­an þegar for­eldr­ar hafa inn­sýn í þarf­ir barns­ins. Það er bara stund­um sem for­eldr­arn­ir sjá ekki hvað er besta fyr­ir barnið sitt.

Ég hef aldrei hitt for­eldri, jafn­vel for­eldri sem er mjög veikt af neyslu eða ein­hvers kon­ar vanda, sem ekki elsk­ar barnið sitt og vill ekki það besta fyr­ir barnið. Það er bara for­eldrið sem þarf að fá betri tæki og tól og skiln­ing til að geta unnið að vel­ferð barns­ins síns.“

Barna­vernd­ar­mál­um fækkað mikið

Líkt og áður sagði hef­ur Aust­ur­lands­líkanið skilað góðum ár­angri. Júlía bend­ir á að fé­lagsþjón­ustu­svæðið sé lítið, telji aðeins tæp­lega 6.000 íbúa, en barna­vernd­ar­mál­um á svæðinu hef­ur fækkað mikið. Mál­um sem heyra und­ir Aust­ur­lands­líkanið hef­ur hins veg­ar fjölgað.

„En það er líka betra að vinna með væg­ari inn­grip og meira í sam­vinnu við málsaðila og vinna all­an hring­inn með alla sér­fræðing­ana í kring­um fjöl­skyld­una að lausn vand­ans. Fólk þarf þá ekki að vera að banka hjá öll­um kerf­um og segja sög­una sína aft­ur og aft­ur. Það eru sam­hæfð úrræði og sam­taka­mátt­ur þess­ara stofn­ana, sem eru að þjón­usta barnið og fjöl­skyld­una, sem koma sam­an og vinna málið á ein­um stað.“

Júlía seg­ir það sýna sig að þetta kerfi sé betra fyr­ir not­end­ur þjón­ust­unn­ar, bæði börn og for­eldra, en einnig sér­fræðing­ana. Sér­stak­lega þegar reynsla er komið á kerfið, það orðið smurt og farið að virka vel.

„Það er miklu betra að vinna þetta á sam­hæfðan hátt í gegn­um sama teymi sem býr til og legg­ur lín­urn­ar fyr­ir það sem kall­ast þjón­ustu­áætlun í sam­starfi við for­eldr­ana og stund­um barnið.“

Sjá von­andi færri krón­ísk mál

Það tek­ur yf­ir­leitt ein­hvern tíma að sjá ár­ang­ur af breyt­ing­um sem verið er að inn­leiða og er það raun­in með Aust­ur­lands­líkanið. Árang­ur­inn fer að sjást enn bet­ur þegar leik­skóla­börn­in sem grip­in hafa verið fær­ast upp grunn­skól­ana, að sögn Júlíu.

„Við töl­um um skafl­inn okk­ar, eins og þeir gera úti í Dan­mörku þar sem þetta verklag hef­ur verið inn­leitt. Við erum að vinna okk­ur í gegn­um ár­gang­ana og ýtum á und­an okk­ur erfiðari mál­un­um, sem eru langt geng­in og krón­ísk og erfitt að vinda ofan af vand­an­um. En þegar við erum far­in að fá yngri krakk­ana, sem við höf­um náð að grípa og styðja fyrr í upp­vext­in­um, upp í eldri bekki skól­anna, þá ætt­um við von­andi að sjá enn færri krón­ísk mál. Við þekkj­um vanda barn­anna og erum búin að vera að styðja við þau og von­andi að koma í veg fyr­ir langt geng­inn og al­var­leg­an vanda, með því að koma inn á fyrri stig­um. Sparnaður­inn kem­ur kannski ekki fram fyrr en að nokkr­um árum liðnum í þunga og vinnslu, en við erum far­in að sjá til dæm­is fækk­un á al­var­leg­um barna­vernd­ar­mál­um sem er vel.“

Júlía seg­ir þetta líka hafa þær já­kvæðu af­leiðing­ar að vinna barna­vernd­ar­starfs­manna sé orðin meira gef­andi, þar sem hægt sé að eyða meiri tíma í að leiðbeina og sinna skjól­stæðing­um í stað þess að sitja við tölvu að mestu þó það fylgi alltaf starf­inu líka. Hver og einn barna­vernd­ar­starfsmaður hef­ur nú færri mál á sínu borði og hverj­um og ein­um skjól­stæðingi því sinnt bet­ur.

Júlía er stolt af þeim ár­angri sem hef­ur náðst en viður­kenn­ir að breyt­inga­stjórn­un sé alltaf erfið. Nú sé hins veg­ar búið að inn­leiða far­sæld­ar­lög­in að mestu leyti í Múlaþingi. Eitt­hvað sem mörg önn­ur sveit­ar­fé­lög eru ný­byrjuð á og eiga mikla vinnu fyr­ir hönd­um.

„All­ar breyt­ing­ar eru erfiðar, að fylgja þeim eft­ir og móti­vera starfs­fólk, fá það til að fylgja því eft­ir og sjá ljósið og til­gang­inn. Það er voða gott að vera búin að því.“

Erfitt að vinda ofan af al­gjörri ör­mögn­un og upp­gjöf

Þrátt fyr­ir að margt hafi gengið vel og skilað góðum ár­angri er alltaf eitt­hvað sem bet­ur má fara og þarf að gefa enn meiri gaum að. Ung­lings­stúlk­ur með ógreinda ein­hverfu eru til að mynda hóp­ur sem erfitt hef­ur reynst að ná utan um.

„Þar sem okk­ur hef­ur gengið verst að ná fyr­ir vand­ann það eru einna helst ung­lings­stelp­ur sem reyn­ast svo kannski vera með ein­kenni ein­hverfu og hafa sloppið í gegn­um skóla­námið sitt, jafn­vel upp í sjötta til átt­unda bekk. Við þurf­um að gefa því bet­ur gaum hvort ung­ling­ar sem sýna ein­kenni skóla­forðunar, hvort þeir geti verið með ein­kenni ein­hverfu og mæta þeim fyrr,“ seg­ir Júlía.

„Ég get jafn­vel nefnt til­felli að maður sér jafn­vel al­gjöra kuln­un. Þær eru al­gjör­lega bráðnaðar og bún­ar á því, bún­ar að vera svo lengi að reyna að upp­fylla kröf­ur sam­fé­lags­ins og standa sig á öll­um sviðum. Þær eru svo virki­lega farn­ar að finna fyr­ir því, án þess að skilja það sjálf­ar að þær skilja ekki alltaf þessi óbeinu skila­boð, lík­ams­tján­ingu, hvað ligg­ur á milli orðanna og er sagt und­ir rós. Jafn­vel for­eldr­ar og umönn­un­araðilar í kring eru þá ekki að mæta þeim á grund­velli þeirra skerðing­ar eða fötl­un­ar, sem er svo grát­legt. Að vera búin að missa börn í svona ofboðslega ör­mögn­un og upp­gjöf og mikla van­líðan, það er svo erfitt að vinda ofan af því. Það er allt of seint að gera það þegar þær eru komn­ar með svona langt gengna skóla­forðun og vanda sem end­ar þá jafn­vel inn á barna­geðdeild. Þar er líka erfitt að eiga við hlut­ina. Við get­um gripið inn í vanda þess­ara barna miklu fyrr og hjálpað þeim fyrr og fyr­ir­byggt mikla van­líðan.“

Sorg­legt að sjá erfið skilnaðar­mál

Júlía seg­ir einnig mjög sorg­legt að sjá erfið skilnaðar­mál þar sem for­eldr­ar eiga í svo mikl­um ágrein­ingi að ekki er hægt að fá þá til að setja barnið í fyrsta sæti.

„Við þekkj­um jafn­vel til­felli um börn sem eru kom­in í al­var­lega skóla­forðun og van­líðan þar sem ekki næst að fá for­eldra til að sjá ljósið. Það er alltaf sorg­legt.

Við vit­um það að sam­bönd og hjóna­bönd þar sem eru börn með fötl­un og skerðing­ar, þau enda oft­ar með skilnaði. Ég get al­veg ímyndað mér að sama eigi við þar sem eru hnökr­ar og erfiðleik­ar í upp­eldi. Af hverju ekki að leita sér aðstoðar, ráðgjaf­ar og stuðnings, sér að kostnaðarlausu.“

Júlía seg­ir starfs­fólk skóla og raun sam­fé­lagið allt verða vera vak­andi fyr­ir því ef grun­ur vakn­ar um að ein­hver vandi sé til staðar. Slíkt sé auðveld­ara í þeirri teym­is­vinnu sem unn­in er und­ir for­merkj­um Aust­ur­lands­lík­ans­ins.

„Það er akkúrat það sem ger­ist þegar við í teym­inu erum far­in að vinna úti í skól­un­um, þá eru all­ir sér­fræðing­arn­ir úti í skól­an­um með reglu­bundn­um hætti og þekkja starfs­fólk skól­anna og þau okk­ur. Það er svo auðvelt að koma til okk­ar og fá ráðgjöf og stuðning. Þessi óform­legi stuðning­ur og fyr­ir­spurn­ir og sam­ráð á milli sér­fræðikerfa, það er svo miklu auðveld­ara að koma auga á og koma í ferli snemma, held­ur en bíða þar til vand­inn er orðinn svo al­var­leg­ur að það er ástæða til að til­kynna hann til barna­vernd­ar eins og viðgengst áður í gamla kerf­inu. Sem er mark­miðið með nýju far­sæld­ar­lög­un­um að grípa börn­in snemma og fjöl­skyld­urn­ar.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert