„Oftast er skólaforðun vandi foreldra“

Austurlandslíkanið hefur skilað góðum árangri og barnarverndarmálum hefur fækkað mikið.
Austurlandslíkanið hefur skilað góðum árangri og barnarverndarmálum hefur fækkað mikið.

„Oftast er skólaforðun vandi foreldra. Vegna þess að foreldra skortir innsýn í þarfir barnsins til að það geti stundað skólann með góðum hætti og búið við reglu og ramma sem styður við seiglu. Það er því miður langoftast þannig,“ segir Júlía Sæmundsdóttir, félagsmálastjóri Múlaþings.

Hún stuðlaði að innleiðingu Austurlandslíkansins svokallaða, sem notast hefur verið við á Austurlandi frá árinu 2018, til að byggja undir velferð barna. Með því hefur náðst góður árangur í forvörnum gegn skólaforðun og hefur alvarlegum barnaverndartilfellum fækkað verulega. Um er að ræða samstarfsvettvang þeirra sem koma að málefnum fjölskyldna í Múlaþingi, Fljótsdalshreppi og Vopnafirði, sem félagsþjónusta Múlaþings hefur umsjón með.

Líkanið er unnið eftir danskri fyrirmynd sem kallast Herning-módelið, sem gengur út á að grípa snemma inn í vanda barna og fjölskyldna og reyna þannig að koma í veg fyrir að vandinn vaxi þeim yfir höfuð og verði krónískur eða bitni á þroska þeirra og velferð. Sérfræðingar félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og skólaþjónustu, þar á meðal skólasálfræðingar og skólahjúkrunarfræðingar, vinna saman í teymi með skólastarfsfólki, foreldrum og eftir atvikum barni, að því að lausn vandans.

Þarf ekki alvarlegan vanda til að fá stuðning

Austurlandslíkanið er í raun ákveðið frumkvöðlastarf sem litið var til við gerð farsældarlaganna, sem tóku gildi árið 2021 og eiga að stuðla að farsæld barna. Meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.

Júlía bendir á að í gamla verklaginu, fyrir tíma farsældarlaganna, hafi erfið vandamál, eins og alvarleg skólaforðun, oft ekki komið til kasta félagsþjónustunnar fyrr en alltof seint. Foreldrar hafi því ekki fengið nauðsynlega þjónustu og ráðleggingar í tíma til að takast á við skólaforðun og vandinn því stundum undið upp á sig með alvarlegum afleiðingum fyrir þroska og nám barnsins.

„Það er ómetanlegt hversu þjóðhagslega arðbært það er að grípa snemma inn í vanda og fyrirbyggja frekari skaða,“ segir Júlía. Þá skipti líka miklu máli að foreldrar viðurkenni vandann og séu tilbúnir að þiggja þá hjálp sem býðst.

Þess vegna er líka svo mikilvægt að foreldrar leiti sér aðstoðar. Það er svo sjálfsagt. Nú eiga allir rétt á því að fá ráðgjöf og stuðning án hindrana. Þú þarft ekkert að vera með alvarlegan vanda til að geta beðið um uppeldisráðgjöf og stuðning. Það er svo eðlilegt og við sem erum foreldrar vitum það að við lendum öll í einhverjum vanda með börnin okkar í foreldrahlutverkinu og þurfum að leita okkur ráðgjafar og stuðnings. Það er ekkert til að skammast sín fyrir. Fólk á bara að leita sér ráðgjafar áður en það kemst inn í einhvern vítahring og nær ekki að höndla aðstæður.“

Miklar áhyggjur ef fjarvera er meiri en 18 dagar

Skólaforðun er meðvituð eða ómeðvituð hegðun sem barn eða unglingur sýnir þegar mæta á í skólann. Hegðunin birtist í erfiðleikum með að sækja skóla hvort sem um er að ræða heilan skóladag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma. Árið 2019 sýndi rannsókn Velferðarvaktarinnar að gera mætti ráð fyrir að 2,2 prósent grunnskólanema, eða um eitt þúsund börn, glími við skólaforðun hér á landi, sem rekja má til kvíða, þunglyndis eða erfiðra aðstæðna heima fyrir.

 Ákveðin viðmið eru fyrir það hvað telst ásættanleg fjarvera nemenda frá skóla á hverju skólaári og þegar mörkunum er náð er strax gripið inn í innan Austurlandslíkansins.

„Við fylgjumst með fjarvistum barna í skóla og horfum til landsátaks sem gert var í Bandaríkjunum þar sem farið var að taka á skólaforðun. Það er miðað við að 9 daga fjarvera, eða um það bil 5 prósent, miðað við 180 daga skólaár, sé ásættanleg. En ef hún er komin upp í meira en það þá er það farið að valda áhyggjum. 18 daga fjarvistir á skólaári eða meira, þá er ástæða til að hafa miklar áhyggjur.“

Reglan er að hafa samband við foreldra og nemanda þegar þessum mörkum er náð. Við 5 prósent fjarvistir þá hringir umsjónarkennari heim og ræðir við foreldra um hvaða afleiðingar það getur haft fyrir barnið og um úrbætur. Séu fjarvistir orðnar 10 prósent, eða allt að 18 dagar, þá eru foreldrar og barn kölluð á fund og gerð áætlun um betri mætingu.

Alvarlegt að taka barn í langt vetrarfrí

Aðstæður eru þó ekki alltaf þannig að þess sé þörf, til dæmis ef ástæða fjarvista er vetrarfrí með fjölskyldunni, en Júlía bendir á að það sé ekki æskilegt að fara með barn í tvær vikur til útlanda á skólatíma.

„Það er eitt af því sem við erum að reyna að sporna gegn og tala um að skóli sé vinna sem ber að sinna. Það getur verið mjög alvarlegt að taka barn í langvarandi vetrarfrí. Rannsóknir sýna að börn heltast ekki bara úr lestinni námslega ef það er ekki vel haldið á spöðunum, heldur heltast þau líka úr menningunni í skólanum og geta orðið illa úti félagslega og tapað þræðinum í skólanum hvað varðar félagslega stöðu. Svo maður tali nú ekki um langvarandi áhrif skólaforðunar þegar hún er langt gengin. Það er erfið staða að standa í sem barn og foreldri og oftast mikil vinna að ná góðri stöðu aftur fyrir barnið, bæði námslega og félagslega.

Þegar þess er þörf er gerð áætlun um úrbætur og hún er yfirleitt til skamms tíma til að sjá að hún gangi. Hún miðast þá líka við námslega og félagslega stöðu barnsins. Gangi þær áætlanir ekki eftir á þremur til fjórum vikum þá er málinu vísað í líkanið, þar sem er unnið samkvæmt farsældarlögunum núna,“ segir Júlía.

Júlía Sæmundsdóttir er félagsmálastjóri Múlaþings.
Júlía Sæmundsdóttir er félagsmálastjóri Múlaþings.

„Tregðan á þessu hér áður fyrr var að það þurfti að tilkynna til barnaverndar og þá voru málin oft mikið lengra gengin heldur en einhverjir 18 eða 20 daga fjarvistir,“ bætir hún við. Tregða hafi verið við að tilkynna langvarandi fjarvistir frá skóla til barnaverndar, þar sem barnaverndarmál geti verið mikið inngrip í líf fólks og því oft reynt að leysa vandann lengi innan skólans áður en til samhæfðra aðgerða er gripið.

„En þegar hægt er að vinna málin á vægari hátt, án þess að það sé kannski eitthvað boðvald eða þvingunarúrræði sem stundum þarf að grípa til innan barnaverndar, þá er það auðvitað jákvæðara. Þetta byggir á valdeflingu og samtali við málsaðila, að þeir hafi sjálfir eitthvað um það að segja hvernig á að leysa vandann. Auk þess eru foreldrar sérfræðingar í sínum börnum og þekkja vanda þeirra og sinn best sjálfir. Innan teymis Austurlandslíkansins veitum við líka oft stuðning og úrræði sem eru yfirleitt ekki veitt börnum og fjölskyldum nema það sé barnaverndarmál í gangi eða á grundvelli fötlunar eða einhverra stærri mála,“ útskýrir Júlía.

Vilja ná til þessara barna í leikskólanum

Forvarnarstarfið hefst í raun strax á leikskólastiginu og segir hún mikla áherslu lagða á að ná til barnanna og foreldra þeirra áður en þau koma upp í grunnskólana.

„Þar sjáum við oft foreldra sem eru að kljást við sjálfa sig og eiga erfitt með að halda utan um rútínu og ramma sem öll börn þurfa, og þurfa stuðning. Við viljum fá ábendingar um þessar fjölskyldur og geta komið inn fyrr með snemmtækum hætti og styðja þessa foreldra til að efla seiglu, góða mætingu og rútínu í lífi barna sinna og sjálfrar sín, vegna þess að foreldrar eru líka fyrirmyndir.

Við sjáum það oft sem höfum verið lengi í barnavernd og höfum unnið í leik- og grunnskólum að börn sem eiga svona foreldra þau verða oft skólaforðunarbörn seinna. Stundum verður vandinn ekki alvarlegur fyrr en á unglingsaldri og þá er vandinn orðinn krónískur og illviðráðanlegur. Það að grípa snemma inn í á meðan börnin eru ung og foreldrarnir eru að fóta sig í foreldrahlutverkinu, getur breytt gríðarlega miklu.“

Foreldrarnir ná ekki að mæta þörfum barnsins 

Að sögn Júlíu eru vissulega til margar útgáfur af skólaforðun og það getur verið einhverjir persónulegir þættir í lífi barnsins valdi því að barnið vill ekki eða á erfitt með að mæta í skólann.

„En oftast er það þannig að foreldrar eru ekki að sinna uppeldisskyldum sínum rétt eða þá að þeir ná ekki að mæta þörfum barnsins á réttan hátt. Til að mynda þegar barn er með forðunarhegðun eða fælist að mæta í skóla eða að takast á við áskoranir daglegs lífs, heimalærdóm, skyldur og fleira, þá er það kannski ekki vondur ásetningur hjá foreldri að takast ekki á við þetta og ögra ekki barninu til að takast á við þessa hluti, styrkja barnið og efla seiglu þess, heldur að pakka því í bómull, vorkenna og leyfa því að vera bara heima. Það er ekki það að foreldrið sé að hugsa um að skaða barnið sitt til frambúðar. Það er gert af ást og velvilja og umhyggju fyrir barninu, en hugsunin er kannski ekki rétt og þegar foreldrinu er leitt fyrir sjónir hvaða afleiðingar það hefur fyrir barnið þá kannski breytast hlutirnir.“

Stundum hafa þessir foreldrar sjálfir glímt við félagslega erfiðleika, að sögn Júlíu, og stundum er verið að rjúfa félagslegan arf.

„Það svo mikilvægt að geta breytt þessum félagslega arfi og rofið þennan vítahring þar sem við náum að kippa einni kynslóð frá því að verða, jafnvel í verstu tilfellum, vanvirkir einstaklingar í samfélaginu, sem kostar gríðarlega fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild. Svo eiga þessir einstaklingar börn og eru að velta þessum félagslega vanda yfir á næstu kynslóð. Það gríðarlegur ávinningur af því að rjúfa þennan félagslega arf, að breyta þessu mynstri. Fjárfesting í börnum skilar sér margfalt fyrir samfélagið.“

Sjá ekki alltaf hvað er best fyrir barnið

Lögð er áhersla á að styðja foreldra sem standa illa bæði félagslega og fjárhagslega og eru börn þeirra meðal annars studd til íþrótta- og tómstundaiðkunar.

„Eins erum við með töluvert marga foreldra sem myndu uppfylla greiningarskilmerki þess að teljast vera fatlaðir og hefðu í gamla verklaginu kannski ekki getað verið með börnin sín. Þau hefðu verið vistuð utan heimilis. En með miklum stuðningi inni á heimili, sem er auðvitað gríðarleg vinna og kostnaður, þá má styðja þessa foreldra til að hafa börnin sín heima. Það má gera með stuðningsfjölskyldum og fleira til að hvíla foreldrana. Og börnin upplifa þá líka  góð uppeldisskilyrði hjá stuðningsfjölskyldunni. Við þurfum alltaf að horfa á hagsmuni barnsins og hagsmunir barnsins og foreldra eiga alltaf að fara saman þegar foreldrar hafa innsýn í þarfir barnsins. Það er bara stundum sem foreldrarnir sjá ekki hvað er besta fyrir barnið sitt.

Ég hef aldrei hitt foreldri, jafnvel foreldri sem er mjög veikt af neyslu eða einhvers konar vanda, sem ekki elskar barnið sitt og vill ekki það besta fyrir barnið. Það er bara foreldrið sem þarf að fá betri tæki og tól og skilning til að geta unnið að velferð barnsins síns.“

Barnaverndarmálum fækkað mikið

Líkt og áður sagði hefur Austurlandslíkanið skilað góðum árangri. Júlía bendir á að félagsþjónustusvæðið sé lítið, telji aðeins tæplega 6.000 íbúa, en barnaverndarmálum á svæðinu hefur fækkað mikið. Málum sem heyra undir Austurlandslíkanið hefur hins vegar fjölgað.

„En það er líka betra að vinna með vægari inngrip og meira í samvinnu við málsaðila og vinna allan hringinn með alla sérfræðingana í kringum fjölskylduna að lausn vandans. Fólk þarf þá ekki að vera að banka hjá öllum kerfum og segja söguna sína aftur og aftur. Það eru samhæfð úrræði og samtakamáttur þessara stofnana, sem eru að þjónusta barnið og fjölskylduna, sem koma saman og vinna málið á einum stað.“

Júlía segir það sýna sig að þetta kerfi sé betra fyrir notendur þjónustunnar, bæði börn og foreldra, en einnig sérfræðingana. Sérstaklega þegar reynsla er komið á kerfið, það orðið smurt og farið að virka vel.

„Það er miklu betra að vinna þetta á samhæfðan hátt í gegnum sama teymi sem býr til og leggur línurnar fyrir það sem kallast þjónustuáætlun í samstarfi við foreldrana og stundum barnið.“

Sjá vonandi færri krónísk mál

Það tekur yfirleitt einhvern tíma að sjá árangur af breytingum sem verið er að innleiða og er það raunin með Austurlandslíkanið. Árangurinn fer að sjást enn betur þegar leikskólabörnin sem gripin hafa verið færast upp grunnskólana, að sögn Júlíu.

„Við tölum um skaflinn okkar, eins og þeir gera úti í Danmörku þar sem þetta verklag hefur verið innleitt. Við erum að vinna okkur í gegnum árgangana og ýtum á undan okkur erfiðari málunum, sem eru langt gengin og krónísk og erfitt að vinda ofan af vandanum. En þegar við erum farin að fá yngri krakkana, sem við höfum náð að grípa og styðja fyrr í uppvextinum, upp í eldri bekki skólanna, þá ættum við vonandi að sjá enn færri krónísk mál. Við þekkjum vanda barnanna og erum búin að vera að styðja við þau og vonandi að koma í veg fyrir langt genginn og alvarlegan vanda, með því að koma inn á fyrri stigum. Sparnaðurinn kemur kannski ekki fram fyrr en að nokkrum árum liðnum í þunga og vinnslu, en við erum farin að sjá til dæmis fækkun á alvarlegum barnaverndarmálum sem er vel.“

Júlía segir þetta líka hafa þær jákvæðu afleiðingar að vinna barnaverndarstarfsmanna sé orðin meira gefandi, þar sem hægt sé að eyða meiri tíma í að leiðbeina og sinna skjólstæðingum í stað þess að sitja við tölvu að mestu þó það fylgi alltaf starfinu líka. Hver og einn barnaverndarstarfsmaður hefur nú færri mál á sínu borði og hverjum og einum skjólstæðingi því sinnt betur.

Júlía er stolt af þeim árangri sem hefur náðst en viðurkennir að breytingastjórnun sé alltaf erfið. Nú sé hins vegar búið að innleiða farsældarlögin að mestu leyti í Múlaþingi. Eitthvað sem mörg önnur sveitarfélög eru nýbyrjuð á og eiga mikla vinnu fyrir höndum.

„Allar breytingar eru erfiðar, að fylgja þeim eftir og mótivera starfsfólk, fá það til að fylgja því eftir og sjá ljósið og tilganginn. Það er voða gott að vera búin að því.“

Erfitt að vinda ofan af algjörri örmögnun og uppgjöf

Þrátt fyrir að margt hafi gengið vel og skilað góðum árangri er alltaf eitthvað sem betur má fara og þarf að gefa enn meiri gaum að. Unglingsstúlkur með ógreinda einhverfu eru til að mynda hópur sem erfitt hefur reynst að ná utan um.

„Þar sem okkur hefur gengið verst að ná fyrir vandann það eru einna helst unglingsstelpur sem reynast svo kannski vera með einkenni einhverfu og hafa sloppið í gegnum skólanámið sitt, jafnvel upp í sjötta til áttunda bekk. Við þurfum að gefa því betur gaum hvort unglingar sem sýna einkenni skólaforðunar, hvort þeir geti verið með einkenni einhverfu og mæta þeim fyrr,“ segir Júlía.

„Ég get jafnvel nefnt tilfelli að maður sér jafnvel algjöra kulnun. Þær eru algjörlega bráðnaðar og búnar á því, búnar að vera svo lengi að reyna að uppfylla kröfur samfélagsins og standa sig á öllum sviðum. Þær eru svo virkilega farnar að finna fyrir því, án þess að skilja það sjálfar að þær skilja ekki alltaf þessi óbeinu skilaboð, líkamstjáningu, hvað liggur á milli orðanna og er sagt undir rós. Jafnvel foreldrar og umönnunaraðilar í kring eru þá ekki að mæta þeim á grundvelli þeirra skerðingar eða fötlunar, sem er svo grátlegt. Að vera búin að missa börn í svona ofboðslega örmögnun og uppgjöf og mikla vanlíðan, það er svo erfitt að vinda ofan af því. Það er allt of seint að gera það þegar þær eru komnar með svona langt gengna skólaforðun og vanda sem endar þá jafnvel inn á barnageðdeild. Þar er líka erfitt að eiga við hlutina. Við getum gripið inn í vanda þessara barna miklu fyrr og hjálpað þeim fyrr og fyrirbyggt mikla vanlíðan.“

Sorglegt að sjá erfið skilnaðarmál

Júlía segir einnig mjög sorglegt að sjá erfið skilnaðarmál þar sem foreldrar eiga í svo miklum ágreiningi að ekki er hægt að fá þá til að setja barnið í fyrsta sæti.

„Við þekkjum jafnvel tilfelli um börn sem eru komin í alvarlega skólaforðun og vanlíðan þar sem ekki næst að fá foreldra til að sjá ljósið. Það er alltaf sorglegt.

Við vitum það að sambönd og hjónabönd þar sem eru börn með fötlun og skerðingar, þau enda oftar með skilnaði. Ég get alveg ímyndað mér að sama eigi við þar sem eru hnökrar og erfiðleikar í uppeldi. Af hverju ekki að leita sér aðstoðar, ráðgjafar og stuðnings, sér að kostnaðarlausu.“

Júlía segir starfsfólk skóla og raun samfélagið allt verða vera vakandi fyrir því ef grunur vaknar um að einhver vandi sé til staðar. Slíkt sé auðveldara í þeirri teymisvinnu sem unnin er undir formerkjum Austurlandslíkansins.

„Það er akkúrat það sem gerist þegar við í teyminu erum farin að vinna úti í skólunum, þá eru allir sérfræðingarnir úti í skólanum með reglubundnum hætti og þekkja starfsfólk skólanna og þau okkur. Það er svo auðvelt að koma til okkar og fá ráðgjöf og stuðning. Þessi óformlegi stuðningur og fyrirspurnir og samráð á milli sérfræðikerfa, það er svo miklu auðveldara að koma auga á og koma í ferli snemma, heldur en bíða þar til vandinn er orðinn svo alvarlegur að það er ástæða til að tilkynna hann til barnaverndar eins og viðgengst áður í gamla kerfinu. Sem er markmiðið með nýju farsældarlögunum að grípa börnin snemma og fjölskyldurnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert