Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Páls Vilhjálmssonar, sem er sakaður um meiðandi ummæli gagnvart blaðamönnunum Arnari Þór Ingólfssyni og Þórði Snæ Júlíussyni auk starfsmanna RÚV, segir að málið sé ekki flókið. Páli sé heimilt að lýsa sínum skoðunum og hann sé varinn af tjáningarfrelsi.
Ákvæði um tjáningarfrelsi beri að túlka þröngt.
Sigurður bendir á dómafordæmi þar sem bent er á að tjáningarfrelsinu verði einungis settar skorður ef skorðurnar teljist nauðsynlegar. Vísar hann þar í túlkun mannréttindadómstóls.
Þetta kemur fram í málflutningi Sigurðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Þá bendir hann á að Landsréttur hafi sett fram leiðbeinandi ummæli um það hvernig beri að túlka tjáningarfrelsið. Páll hafi ritað ummæli sín í góðri trú. Sannleiksgildi ummæla geri fólk ekki skaðabótaskylt jafnvel þó ummæli séu ósönnuð.
Taka verði mið af aðstæðum þar sem Samherjamálið svokallaða var í hámæli. Þannig verði ekki fært að horfa einangrað til þeirra ummæla sem Páll er sakaður um að hafa látið falla og verið meiðandi.
Hann segir að bloggfærslur Páls Vilhjálmssonar byggi m.a. á greinaskrifum Kjarnans og annarra sem sem fjölluðu um Samherjamálið. Þau hafi verið sögð byggð á stolnum gögnum í fréttaskrifum.
Sigurður vísar í fréttir þess efnis þar sem blaðamenn voru ásakaðir um stuld á gögnum. Bendir hann á að Páll hafi fjallað um skrif Kjarnans, Stundarinnar og RÚV og sett fram kenningar það hvernig gagnanna var aflað.
Bendir Sigurður á að greinaskrifin miði að upplýsingum sem komu fram í fjölmiðlum um að gögnum hafi verið stolið úr síma Páls Steingrímssonar skipstjóra. Segir Sigurður að á sama tíma og Þórður og Arnar hafi verið yfirheyrðir í tengslum við brot á friðhelgi einkalífs hafi Páll birt skrif sín.
Hann hafi því haft nokkuð til síns máls um að blaðamennirnir hafi verið viðriðnir stuld á gögnunum. Gögnum sem sögð voru aflað með byrlun og stuldi á síma.
Sigurður tók sem dæmi mál manns gegn blaðamanninum Helga Seljan, þegar Helgi starfaði fyrir Kastljós á RÚV. Þar hefði Helgi sakað mann um misþyrmingu og skjalafals án þess að hann hefði verið dæmdur fyrir slíkt.
Helgi hafi verið sýknaður af meiðandi ummælum. Segir Sigurður að máli Páls svipi til máls Helga. Þessi dómur kollvarpi því málflutningi Vilhjálms, lögmanns Þórðar og Arnars Þórs. Vilhjálmur sagði í andsvörum á að þarna hefði verið viðmælandi í myndveri og því ekki um sambærilegt mál að ræða.
Þá segir Sigurður að Páll hafi einfaldlega verið að lýsa skoðun sinni á blaðamönnum sem hafi gengið hart gegn Samherja.
Blaðamenn sem séu svo viðkvæmir að „þeir ættu að fást við blómaskreytingar“ segir Sigurður að hann hafi haft eftir lögreglumanni hjá lögregluembættinu á Norðurlandi eystra í kjölfar hneykslunar blaðamanna á því að hafa þurft að sitja skýrslutöku hjá embættinu.
Þá bendir hann á að Páll hafi verið að vísa til rannsóknar lögreglu á stuldi á gögnum. Rannsókn málsins sé ekki lokið og því ekki hægt að fullyrða um það hvað sé rétt og hvað sé rangt í málinu. Því eigi röksemdafærsla Vilhjálms um að umbjóðendur hans séu saklausir uns sekt sé sönnuð ekki við.
Í lokaorðum sínum sagði Sigurður þó að Páll hefði stundum talað óvarlega í sínum málum. Ummæli hans væru aftur á móti ekki úr lausu lofti gripin þar sem fregnir af Samherjamálum hefðu verið í hámæli. Þá væri óumdeilt að blaðamennirnir hefðu verið kallaðir til skýrslutöku vegna meints stuldar á gögnum úr síma.