Ráðist á Eflingu með „fordæmalausri heift og tryllingi“

Sólveig Anna boðar aðgerðir gegn verkbanni.
Sólveig Anna boðar aðgerðir gegn verkbanni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir Samtök atvinnulífsins ætla að ráðast á félagsfólk Eflingar með „fordæmalausri heift og tryllingi“ og ætli í bræði sinni að beita rúmlega 20 þúsund einstaklinga „grófu efnahagslegu ofbeldi“ í stað þess að mæta kröfum Eflingar.

Þetta kemur fram í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni í morgun.

Vísar hún þar til verkbanns sem SA hefur boðað á félagsfólk Eflingar sem starfar undir kjarasamningum félagsins við SA. Verkbannið hefst að öllu óbreyttu á fimmtudag, en þá má Eflingarfólk á almennum markaði ekki mæta til vinnu og fær ekki greidd laun.

ASÍ hefur hins vegar stefnt SA fyrir Félagsdóm vegna verkbannsins til þess að fá það ógilt. Fyrirtaka í málinu verður í dag en gert er ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir á miðvikudag.

Boðar aðgerðir gegn verkbanni

Sólveig segir að Efling muni ekki taka árás SA þegjandi og hljóðalaust og boðar hún aðgerðir á fimmtudag.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að sýna og sanna að við höfnum ofríki auðvaldsins og getuleysi stjórnmálanna. Við munum aldrei gefast upp fyrir ofbeldi og ógnarstjórn. Við munum berjast gegn glæpsamlegu verkbanni SA af öllu afli. Við hefjum aðgerðir gegn því á hádegi á fimmtudag og höldum þeim áfram eins lengi og þarf.“

Þá segir hún það „magnaða staðreynd“ að enginn úr ríkisstjórninni hafi haft neitt um málið að segja.

„Enginn hefur neitt út á það að setja að ráðast skuli að fólkinu sem knýr hér áfram hagvöxtinn, heldur öllu gangandi, greiðir skatta, svo að stjórnmálastéttin geti lifað í vellystingum. Ekki orð. Annað en röfl fáfræðingsins um að ekkert sé nauðsynlegra en að breyta vinnulöggjöfinni svo að treysta megi í sessi einræðisstöðu ríkissáttasemjara.“

Verkfæri ríkissáttasemjara í uppnámi

Bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hafa sagt að endurskoða þurfi vinnulöggjöfina eftir að Landsréttur úrskurðaði að Efling þyrfti ekki að afhenda ríkissáttasemjara kjörgögn svo hægt væri að kjósa um miðlunartillöguna sem hann lagði fram.

„Eins og staðan er í dag þá er hægt að leggja fram miðlun­ar­til­lögu, en það er erfiðara að láta kjósa um hana. Þar með er þetta verk­færi rík­is­sátta­semj­ara í ákveðnu upp­námi. Ég held við get­um öll verið sam­mála um að við það verði ekki unað,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is í síðustu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert