Segir Seðlabankann neyðast til að taka stór skref

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, ræddi við mbl.is um …
Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, ræddi við mbl.is um verðbólgu og aðgerðir Seðlabankans.

Í ljósi nýjustu verðbólgumælingar Hagstofunnar mun Seðlabankinn neyðast til að taka stór skref í vaxtahækkun á næsta fundi sínum til að stemma stigu við verðbólgunni. Þetta segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, í samtali við mbl.is

Seðlabankinn og flestir greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir því að verðbólgan myndi lækka á milli mánaða en niðurstaðan varð hins vegar allt önnur og fór tólf mánaða verðbólga yfir 10% í fyrsta skiptið í tæplega fjórtán ár, eða frá því í september árið 2009 þegar verðbólgan var á niðurleið í kjölfar efnahagshrunsins.

Þannig gerðu greiningardeild Íslandsbanka og hagfræðideild Landsbankans báðar ráð fyrir að verðbólgan í febrúar myndi mælast 9,6%. Niðurstaðan varð hins vegar ársverðbólga upp á 10,2%.

Ástæðuna að finna í útsölulokum og flugfargjöldum

Erna segir að ástæðan fyrir þessum mun í mælingu og á væntingum greiningaraðila megi helst finna í tveimur undirliðum verðbólgumælinganna. Í fyrsta lagi hafi áhrif útsöluloka verið miklu meiri í febrúar en gert var ráð fyrir, sérstaklega þegar kemur að húsgögnum og heimilisbúnaði. Það þýðir í raun að verð hækkaði meira og skarpar þegar útsölum lauk en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir.

Í öðru lagi hafi flugfargjöld hækkað um 0,7% milli mánaða. Það eitt og sér hafi reyndar takmörkuð áhrif á verðbólguna, en greiningaraðilar höfðu hins vegar gert ráð fyrir 4-9% lækkun flugfargjalda sem hefði þá komið til móts við hækkun annarra liða. Erna segir einnig að þegar undirliðir mælingarinnar séu skoðaðir komi í ljós að meiri verðbólguþrýstingur í kerfinu en greinendur höfðu gert ráð fyrir, meðal annars á matvöru og þjónustu.

Kallar á harðari viðbrögð Seðlabankans

„Spárnar eru allar dálítið út á þekju og maður getur gert ráð fyrir að það geti tekið talsvert lengri tíma og kallað á harðari viðbrögð frá peningastefnunni til að ná verðbólgunni sýnilega niður,“ segir hún.

Á móti vinni hins vegar að ef áhrif útsöluloka hafi vegið svona sterkt inn núna ætti það að þýða að þrýstingurinn og áhrifin af útsölulokunum verði minni í mars sem gæti þá hjálpað til við að draga ársverðbólguna niður.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi peningastefnunefndar í síðasta mánuði. Hann …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi peningastefnunefndar í síðasta mánuði. Hann hefur í þrígang talið að hámarki verðbólgunnar væri náð, en hún hefur reynst lífseig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á síðasta fundi peningastefnunefndar sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að hann áliti að verðbólgan hefði náð hámarki og væri á leiðinni niður. Þetta var þó ekki í fyrsta skipti sem Ásgeir hefur verið bjart­sýnn um hvernig gangi í þeirri glímu, en á síðustu tveim­ur fund­um hef­ur hann horft til þess að há­mark­inu sé náð varðandi verðbólg­una.

Þannig sagði hann í október að mögu­lega væri komið að vatna­skil­um og í desember sagði Ásgeir að hækk­un vaxta, sem þá fóru upp í 6% ætti að vera nóg til að vinna á verðbólg­unni. Sagði hann jafnframt á þeim fundi að Seðlabankinn væri reiðubúinn að halda áfram með vaxtahækkanir ef þörf væri á, en stýrivextir bankans standa nú í 6,5%.

Sjálfur setti hann sér tímaramma á síðasta fundi nefndarinnar og sagði að verulegur árangur þyrfti að vera kominn fram fyrir haustið. „Ann­ars verður það ávís­un á fleiri vand­ræði á vinnu­markaði. Við sjá­um hvaða áhrif þessi háa verðbólga hef­ur á vinnu­markaðinn núna, verk­föll og vesen,“ sagði Ásgeir þá.

0,5 prósentustig algjört lágmark

Erna segir að peningastefnunefnd hafi síðast sagt að nefndin væri ekki að stjórnast af einni verðbólgumælingu, heldur horfði yfir lengra tímabil í ákvarðanatöku sinni.

„En ég held samt að staðan sé bara þannig að þau geta ekki horft framhjá þessari mælingu og í ljósi þess að við síðustu ákvarðanatöku þá var rætt að hækka vexti um 0,5 upp í 1 prósentustig. Þá held ég að við getum alveg reiknað með því að þegar nefndin komi saman nú í mars muni hún neyðast til að taka nokkuð stórt skref út frá bara þessari mælingu og út frá því sem virðist vera miklu meiri þensla og verðbólguþrýstingur í kerfinu.“

Spurð nánar um hvað hún eigi við með stór skref segir Erna að búast megi við því að hálf prósentustig sé að verða algjört lágmark.

Í ljósi fyrrnefndra útsöluáhrifa sem komu sterk inn í þessum mánuði og meðal annars þess að stórir mánuðir í húsnæðishækkunum á síðasta ári fara að detta út í ársverðbólgunni segir Erna að hún eigi von á því að verðbólgan muni minnka í næsta mánuði. „Það er líklegt að við förum niður fyrir 10% í næsta mánuði, en ekki mikið niður fyrir það. Við verðum þarna í grendinni,“ segir hún.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert