Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að breytingar við þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland hafi verið samþykktar á Alþingi í dag í tiltölulega breiðri sátt.
Hún bendir á, að fyrsta stefna þessarar tegundar hafi verið samþykkt árið 2016 og þá hafi verið lagðar þær meginlínur að stefnan skyldi byggð á breiðum grunni. Ekki eingöngu að snúast um hefðbundnar hernaðarógnir, heldur einnig samfélagslegar ógnir. Þannig sé fjallað um net- og fjarskiptaöryggi, farsóttir, loftslagsvá og aðrar náttúruhamfarir og fjármálaöryggi í stefnunni fyrir utan hernaðarógnir.
Stefnan byggist á hugmyndinni um samfélagslegt öryggi og markmiðin séu skýr: Að tryggja sjálfstæði, fullveldi, lýðræðislegt stjórnarfar og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og mikilvægra innviða samfélagsins.
„Grundvallarþáttur er að taka þátt í virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.
Ég hef leitt þjóðaröryggisráð frá árinu 2017 þegar ég tók við embætti forsætisráðherra og stefnan hefur verið okkur mikilvægur leiðarvísir til að takast á við krefjandi viðfangsefni – það er trú mín að nýsamþykkt stefna verði áfram góður vegvísir á viðburðaríkum tímum,“ segir Katrín.