Katrín ósátt með miklar launahækkanir forstjóra

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gagnrýnir harðlega miklar launahækkanir forstjóra skráðra fyrirtækja á síðasta ári og segir forystufólk í atvinnulífinu þurfa að ganga á undan með góðu fordæmi eiig að biðja launafólk um að axla ábyrð á stöðugleika.

Í samantekt á Heimildinni sem birt var í dag kemur fram að launahækkun forstjóra þeirra 15 fyrirtækja sem hafa birt ársuppgjör síðasta árs nemi um 22% milli ára. Er þar einnig tekið mið af bónusgreiðslum og önnur starfsréttindi, en meðallaun forstjóranna voru 7,1 milljón á mánuði. Það er umtalsvert umfram almenna hækkun í fyrra, en samkvæmt Hagstofunni hækkaði launavísitalan um rúmlega 12% í fyrra.

Katrín segir launakröfur almennings hafa verið mun hófstilltari en forsvarsmanna í atvinnulífinu, en að ganga þurfi á undan með góðu fordæmi, sérstaklega í verðbólguástandi eins og nú. „Mér finnst mikilvægt í þessu samhengi að minna á að hér eru ýmsir forystumenn í íslensku atvinnulífi að tala um mikilvægi þess að launafólk axli ábyrgð á stöðugleikanum. En það er nákvæmlega þetta sem ég hef bent á þegar ég fæ tækifæri til að ávarpa forystufólk í atvinnulífinu, hvort sem er á Viðskiptaþingi eða hjá Samtökum atvinnulífsins. Það biður enginn launafólk að axla ábyrgð á stöðugleikanum nema forystufólkið gangi á undan með góðu fordæmi. Og 22% hækkun á launum forstjóra í Kauphöllinni er auðvitað langt umfram það sem venjulegur launamaður getur reiknað með.“

Ljóst er að framundan er atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í máli Eflingar og SA og þá losna samningar á opinberum markaði síðar á árinu. Katrín segir þessar tölur ekki gott veganesti inn í kjaraviðræðurnar. „Gleymum því að þetta eru allt skammtímasamningar þannig að við okkur blasir í lok árs að gera samninga til lengri tíma til að tryggja efnahagslega farsæld í íslensku samfélagið. Að sjálfsögðu horfir launafólk til þessara talna,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert