Búa sig undir að leiða næstu ríkisstjórn

„Það er bara æðisleg stemmning hérna, það er fullur salur, …
„Það er bara æðisleg stemmning hérna, það er fullur salur, mikill andi og gott hljóð í fólki,“ segir Kristrún Frostadóttir. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Mikill hugur er í Samfylkingarfólki sem tekur stuðning almennings alvarlega að sögn formanns flokksins. Heilbrigðismál og öldrunarþjónusta verði sett í forgang með nýju fyrirkomulagi á málefnastarfi. Flokkurinn ætli sér að leiða næstu ríkisstjórn.

„Það er bara æðisleg stemmning hérna, það er fullur salur, mikill andi og gott hljóð í fólki. Það er rosalega gott að fá stutta endurkomu úr fæðingarorlofi og koma inn í svona orku. Bara mikill spenningur, gleði og ánægja, mjög skemmtilegt að koma inn í þennan hóp,“ segir Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar eftir ræðu sína á flokksstjórnarfundi í dag.

Taka væntingum og vonum almennings alvarlega

Samfylkingin mældist með mest fylgi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup eða alls 24 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn var þó ekki langt undan með 22,5 prósent. Spurð hvort það ríki ekki mikil gleði hjá flokknum með nýjar tölur segir Kristrún svo vera.

„Við erum auðvitað bara mjög ánægð að sjá að við  erum greinilega farin að ná eyrum fólks og erum auðvitað bara mjög þakklát fyrir það að fólk er með væntingar til okkar en ég hnykkti nú líka á því í ræðunni minni að það þarf síðan að skila af sér verkefninu. Við erum mjög meðvituð um það að eina könnunin sem skiptir máli er könnunin á kjördag og við tökum því líka alvarlega að það séu komnar væntingar og vonir til okkar.“

Hún segir nýtt form á málefnastarfinu vera kynnt á flokksstjórnarfundi. Forgangsmálin verði sett á oddinn með einskonar lagskiptingu. Byrjað verði á heilbrigðismálum og öldrunarþjónustu og hafi grasrótin, stýrihópur og sérfræðingar verið virkjaðir í því. Klassísku málin lifi þó líka áfram.

Samfylkingin ætli sér í ríkisstjórn, þó ekki einungis til þess að sitja við völd heldur sé mikilvægt að skila af sér verkefnunum. Mikilvægt sé að tíminn sé vel nýttur.

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fór fram í dag.
Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fór fram í dag. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Kjarapakki sem fólk hafi kallað eftir lengi

Þegar Kristrún er spurð út í hvernig Samfylkingin líti á efnahagsástand landsins segir Kristrún efnahagsmál og velferðarkerfi vel tengd.

„Við höfum verið alveg skýr á því að það er ákveðið samhengi hlutanna sem að skiptir máli sem ríkisstjórnin virðist ekki annað hvort átta sig á eða vilja viðurkenna. sem er það að efnahagsmálin eru auðvitað nátengd velferðarmálunum. Þá ólgu sem að við erum að sjá í verðbólgutölum, upplifun launafólks að velferðarkerfið styðji ekki við launakjör þeirra og þess vegna þurfi að fá fram meiri launahækkanir, það byggir auðvitað á því að velferðarkerfið er að brotna niður á ýmsum stöðum. Við höfum þess vegna lagt fram á þinginu kjarapakka þar sem að við lögðum til að það yrðu sóttar tekjur fyrir allskonar velferðarúrræði sem að voru mjög sértækar,“ segir Kristrún og nefnir þar barnabætur, húsnæðisbætur fyrir þá sem eru á leigumarkaði, vaxtabætur fyrir þá sem eru með dýr húsnæðislán og séu að upplifa miklar hækkanir núna.

Þá vilji Samfylkingin einnig að tekið verði á þenslu í stórútgerð, hjá bönkum og í fjármagnstekjum. Áform flokksins í þessum málum séu eitthvað sem fólk hafi verið að kalla eftir lengi.

„Þetta er svona okkar leið í efnahagsmálum sem er í gegnum velferðarkerfið og við munum áfram tala fyrir þessu og sýna þar með að við erum með lausnir. Við erum ekki bara að hrópa upp og tala um óstjórn heldur er möguleiki á því að stjórna landinu með öðrum hætti og við þurfum að koma því til skila,“ segir Kristrún.

Erfitt að vera í fæðingarorlofi á tímum sem þessum

Hún segir meðlimi Samfylkingarinnar ánægða með nýjustu fylgistölur en fólk sé meðvitað um vinnuna sem sé fram undan. Vinnunni sé tekið mjög alvarlega.

„Við ætlum að mæta með ákveðna verklýsingu fyrir næstu ríkisstjórn sem við ætlum að leiða. Fólk er bara mætt hérna til leiks eins og við kölluðum til fólks og ætlar að reyna að virkja fólk í kringum sig þannig að við séum með skýra stefnu, skýra forgangsröðun og við séum með ákveðnar lausnir sem fólk geti tekið afstöðu til í næstu kosningum,“ segir Kristrún.

Aðspurð hvernig tilfinningin hafi verið að mæta á fundinn í miðju fæðingarorlofi, hvort hana hafi verið byrjað að klæja í puttana segist hún viðurkenna að það sé erfitt að vera í fæðingarorlofi á tímum sem þessum.

„Manni langar auðvitað heilmikið til að taka þátt í umræðunni en það er auðvitað líka bara eins og lífið er, maður þarf að forgangsraða og ég er að sinna miklu mikilvægara verkefni akkúrat núna sem er dóttir mín sem er þriggja vikna,“ segir Kristrún.

Hún segist að sama skapi vera róleg róleg í fjarverunni, flokkurinn sé með öflugan mannafla.

„Þetta er langtímavegferð, þetta er ekki eitthvað sem leysist á þremur mánuðum. Þannig að við höfum líka auðvitað tíma til að sinna persónulegum högum okkar en það er auðvitað alltaf gaman að koma og hitta félagana,“ segir Kristrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert