Gervivori lokið og engin hlýindi í kortunum

Það er eins gott að klæða sig vel næstu daga.
Það er eins gott að klæða sig vel næstu daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höfuðborgarbúar sleppa að öllum líkindum við snjókomu í kuldakastinu sem framundan er í vikunni, en gert er ráð fyrir éljagangi í öllum landshlutum nema á Suðvesturlandi.

Frost verður á bilinu fyrir 5 til 13 stig og engin hlýindi sjáanleg í tíu daga spákorti, að sögn Marcel de Vries, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Margir héldu eflaust að vorið væri komið í hlýindakafla síðustu daga og Marcel hlær þegar blaðamaður nefnir það.

„Ég hef nokkrum sinnum heyrt talað um gervivor eða fyrsta vor og mér finnst mjög passlegt,“ segir hann.

„Eins og spáin er núna er ekki gert ráð fyrir mikilli snjókomu en það snjóar í dag í flestum landshlutum, nema Suðvesturlandi. Þar verður þurrt.“

Það snjóar því ekki í höfuðborginni - í bili að minnsta kosti.

Hlýnar mögulega í lok mars

Spurður hvort það geti breyst þegar líða fer á vikuna segir hann ekki útlit fyrir snjókomu akkúrat núna, en það geti þó myndast ákveðnar aðstæður yfir landinu sem breyti því.

„Spáin akkúrat núna er þannig að það er bara gert ráð fyrir éljum á Norður- og Austurlandi og lengst af þurrt sunnan- og vestantil.“

Marcel segir ekkert útlit fyrir hlýindi næstu tíu daga, samkvæmt spákortum, þó það dragi lítillega úr frosti næstu helgi. „En það er langt í það og því erfitt að segja til um það með einhverri vissu.“

Hann telur hins vegar alveg möguleika á einhverjum hlýindum í lok mars, þó hann geti auðvitað ekki heldur sagt til um það með neinni vissu.

„Það eru mjög skýrir kaldir kaflar í kortunum í næstu viku og vikunni þar á eftir, en eftir það eru ekki skýr merki. Þá gæti hvað sem er gerst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert