Vegagerðin auglýsti fyrir helgina á vef sínum eftir þátttakendum í samkeppnisútboði um að byggja nýja brú yfir Ölfusá. Í pakkanum eru einnig ýmsar hliðarframkvæmdir. Val á þátttakanda tekur mið af hæfi umsækjenda. Fyrirtæki sem býðst þátttaka þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði sem Vegagerðin setur.
Í pakkanum sem nú er boðinn út eru hönnun, framkvæmd og fjármögnun á framkvæmdatíma. Verkefnið felst í að byggja nýjan 3,7 kílómetra langan hringveg, smíða nýja 330 m langa stagbrú yfir Ölfusá, um 1 km af öðrum tveggja akreina vegum, nýjum vegamótum austan Selfoss.
Einnig þarf að útbúa tvenn undirgöng, hvor á sínum stað fyrir umferð gangandi og hjólandi fólks svo og hestamenn.
Brúin nýja yfir Ölfusá verður aðeins ofan við Selfoss og með henni færist umferðin um hringveginn út fyrir bæinn. Vestan að verður ekið inn á tengiveg að brúnni við Biskupstungnabraut við Ingólfsfjall og austan megin er tengingin rétt austan við Selfossbæ. Framkvæmd þessi hefur verið áratugi í umræðu og undirbúningi.
Útboðsauglýsing vegna brúarsmíðinnar og þess sem henni fylgir er aðgengileg í rafræna útboðskerfinu TrendSig fram til 5. apríl nk. Ekki verður haldinn sérstakur opnunarfundur en eftir lok tilboðsfrests verður bjóðendum tilkynnt um hverjir hafi sótt um þátttöku.