40 ábendingar um bresti í bókhaldi Vegagerðarinnar

mbl.is/sisi

Ríkisendurskoðun setur fram ábendingar við 40 annmarka sem krefjast úrbóta, í skýrslu sinni um fjárhagsendurskoðun á bókhaldi Vegagerðarinnar fyrir árið 2020. 

Alþingi samþykkti fyrir tveimur árum skýrslubeiðni frá ríkisendurskoðanda um úttekt á starfsemi Vegagerðarinnar og í gær gaf Ríkisendurskoðun út tvær skýrslur varðandi málið.  

Óreiða í bókhaldi og verkferla skorti

Önnur skýrslan, um fjárhagsendurskoðun á bókhaldi ársins 2020, greinir meðal annars f óreiðu í bókhaldi og að verkferla skorti til að stuðla að innra eftirliti með reikningum.

Ekki eru skráð verkferli vegna tekna, launa, rekstrargjalda og varanlegra rekstrarfjármuna. Mælst er til þess að stjórnendur Vegagerðarinnar setji verklagsreglur um innra eftirlit og tryggi að þeim ferlum sé framfylgt.  

Einnig er gerð athugasemd við millideildarviðskipti innan Vegagerðarinnar sem reyndist erfitt að fá upplýsingar um samkvæmt skýrslunni. Sem dæmi voru á árinu 2019 gefnir út tveir ársreikningar fyrir Vegagerðina, annar af Vegagerðinni og hinn af Fjársýslu ríkisins en þeim bar ekki saman um fjárhæð ytri tekna.

Mælst er til þess að aðeins einn ársreikningur sé útgefin til að tryggja rekjanleika í bókhaldiÁrsreikningurinn er lagður fram af stjórnendum stofnunarinnar og er, ásamt rekstri og innra eftirliti, á ábyrgð þeirra í samræmi við lög og reglur um ríkisstofnanir í A-hluta. 

Ábendingar um aukið öryggiseftirlit

Í hinni skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kynnt var í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær voru gerðar 10 ábendingar um almenna starfsemi á verksviði Vegagerðarinnar, innviðaráðuneytis, og Samgöngustofu sem snúa meðal annars að gæða- og öryggiseftirliti vegaframkvæmda, innri endurskoðunar á starfsemi ásamt eftirfylgni með árangri stofnunarinnar varðandi opinber fjármál en hana má lesa hér 

Beiðni um úttekt á starfsemi Vegagerðarinnar var samþykkt fyrir tveimur árum meðal annars vegna aukinnar umræðu um vegaöryggi og hlutverk Vegagerðarinnar í kjölfar slysa og dauðsfalla, þar sem frágangur vega hafi verið ábótavant. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert