Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segist enn þeirrar skoðunar að vert sé að skoða það að setja upp þjóðarsjóð sem er til þess fallinn að verja Ísland efnahagslegum áföllum. Arðgreiðslur Landsvirkjunar í þetta kastið komi beint í kjölfar heimsfaraldurs og munu nýtast við að koma jafnvægi á í efnahagsmálum. Staða Landsvirkjunar til framtíðar sé hins vegar góð og því megi ætla að arðgreiðslur verði tíðari til framtíðar. Fram kom á ársfundi Landsvirkjunar að arðgreiðslur Landsvirkjunar til ríkisins muni nema 20 milljörðum króna og skatttekjur síðasta árs 30 milljörðum króna.
„Við getum sagt að það sé að raungerast þessi árin það sem við sáum fyrir með arðgreiðslum frá Landsvirkjun að hægt væri byggja upp einskonar áfallasjóð eða þjóðarsjóð. Það sem gerðist hins vegar í millitíðinni er að það kom heimsfaraldur og einnig stríð sem hefur haft mikil verðbólguáhrif. Við erum núna að leggja áherslu á að ná endum saman í ríkisfjármálum og það mun takast ágætlega. En ég er hins vegar enn þeirrar skoðunar að það geti verið gott fyrir litla þjóð að eiga sjóð þegar áföll ríða yfir. Svo þarf að vega það á móti skattastefnu sem auðvitað skiptir máli hvernig er uppbyggð. 50 milljarðar eru kannski ekki eitthvað sem við getum búist við á hverju ári en engu að síður ef Landsvirkjun skilar reglulegum hagnaði þá er þetta eitthvað sem gæti skipt miklu máli fyrir þjóðarbúið,“ segir Bjarni að loknum ársfundi Landsvirkjunar í dag.