Héraðsdómur Reykjavíkur hefur viðurkennt að Landsneti hafi verið óheimilt að leggja aflgjald vegna innmötunar raforku, á Landsvirkjun. Með gjaldskrárbreytingunni var gert ráð fyrir að 12% af tekjum Landsnets hf. verði af innmötunargjaldinu og að úttektarfjöld lækki samsvarandi á móti.
Innmötunargjald sem innheimt var frá apríl til í desember árið 2022 nam rúmlega 1,5 milljörðum króna ef miðað er við ársreikning Landsnets fyrir sama ár.
Þann 1. apríl 2022 tók gildi breytt gjaldskrá Landsnets, sem hóf m.a. í sér að tekið var upp aflgjald fyrir innmötun raforkuvinnsluaðila. Breytingarnar áttu sér nokkurn aðdraganda en Landsnet hóf vinnu við þær í september 2017.
Héraðsdómur taldi ljóst að um væri að ræða gjaldtöku sem m.a. lyti opinberu eftirliti Orkustofnunar og því verði hún að eiga sér skýra lagastoð. Um væri að ræða „eins konar lögbundið þjónustugjald sem þyrfti að gera skýrleikakröfur til, auk þess sem slíkar heimildir verði ekki skýrðar rúmt.“
Þá áréttaði dómurinn að ekki komi fram í 1. mgr. 12. gr. raforkulaga að gjaldskrá skuli einnig gilda fyrir innmötun raforku á flutningskerfið frá raforkuframleiðendum.
Landsnet vísaði hins vegar til ákvæða raforkutilskipunar ESB nr. 2009/72/EB, sem m.a. mæli fyrir um hlutverk eftirlitsstjórnvalda til setningar flutningsgjaldskrár, auk þess sem eftirlitsstjórnvöld skuli tryggja að fullnægjandi endurgjald sé veitt fyrir notkun kerfiseigna og nýjar fjárfestingar. Tilskipunin sé hluti EES-samningsins og því beri að túlka lög og reglur í samræmi við hann.
Héraðsdómur var fáorður um þessa málsástæðu og taldi ákvæði tilskipunarinnar ekki breyta því að gjaldið væri ólögmætt.