„Við funduðum með Hildi Guðnadóttur í gær [fyrradag] til að fara yfir músiklífið og hennar stöðu sem tónskálds,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í samtali við Morgunblaðið, en hún sneri í gær heim úr tveggja daga heimsókn til Berlínar í Þýskalandi þar sem hún fundaði meðal annars með starfssystur sinni, þýska menningarráðherranum Claudiu Roth, sem reyndist vel með á nótunum í íslenskri knattspyrnu. Tilgangur heimsóknarinnar var að efla menningar- og ferðaþjónustutengsl landanna.
„Ég átti langan fund með ráðherra, næstum einn og hálfan tíma, sem var mjög athyglisvert,“ segir Lilja af fundi þeirra ráðherranna. „Hún vissi allt um Alfreð Finnbogason knattspyrnumann og Daða Frey [Pétursson] úr Eurovision,“ heldur hún áfram og rifjar upp árið sársaukafulla sem Ísland hefði – vafalítið – unnið í söngvakeppninni annáluðu. Lengi má ylja sér við það. „Hún sagði að við hefðum verið með langbesta Eurovision-lagið,“ segir ráðherra og staðfestir þar með dóm þýskra stjórnvalda um málið.
„Hún talaði mikið um hvað Alfreð hefði verið vel liðinn hjá [knattspyrnuliðinu] Augsburg og sagði að þar á bæ væri mikið séð eftir honum,“ bætti hún við um orðstír Alfreðs Finnbogasonar í ranni hinna þýðversku.
Eins hafi Roth sýnt íslenskum bókmenntum fádæma áhuga, „og við erum staðráðnar í því að við ætlum að vinna saman á þeim vettvangi. Hún bauð mér að koma með sér á bókmenntahátíð í Leipzig og taka þátt í verkefni með sér þar. Við erum mjög vel kynnt hér og nú vill svo til að Halldór Guðmundsson rithöfundur er að skrifa íslenska bókmenntasögu fyrir Þýskaland og við munum auðvitað nýta tækifærið í Leipzig og koma inn á það,“ segir Lilja frá.
Auk þess standi nú yfir mikið þrekvirki þýskra þýðenda sem er þýðing Íslendingasagnanna yfir á þýsku. „Það hefur auðvitað verið gert áður að einhverju leyti en nú er verið að hefja þessar bókmenntir aftur til vegs og virðingar með nýrri útgáfu og við erum að leita að samstarfsflötum með Þjóðverjum á því hvernig við getum lyft þessum sagnaarfi okkar upp hér í Þýskalandi. Fyrir því er mikill áhugi,“ heldur hún áfram.
Tíminn nýttist íslenska og þýska ráðherranum vel á fundinum í fyrradag því auk knattspyrnu og margþættra menningartengsla var farið yfir glímutök Íslendinga í nýafstöðnum heimsfaraldri kórónuveirunnar. „Hér var því mikil athygli veitt að við héldum leik- og grunnskólum mikið til opnum í faraldrinum, þar unnu íslenskir kennarar auðvitað þrekvirki. Þjóðverjar vita vel af þessu og hér hefur því verið velt upp hvers vegna þeir fóru ekki sömu leið. Hér voru mörg börn ekki í skóla í tvö ár og Claudia ræddi það einmitt sérstaklega að hún vildi rannsaka þau langtímaáhrif sem þetta hefði á þau.“
Lýsti Lilja því hvernig þýskt samfélag væri hægt og bítandi að rísa úr dvalanum eftir faraldurinn – töluvert hægar en það sem Íslendingar þekkja. „Mæting í leikhús og á söfn hér er enn mjög dræm og stjórnvöld hér eru nú að taka upp það fyrirkomulag að bjóða þegnum landsins upphæð sem svarar til 30.000 króna til að sækja sér einhverja menningu, hvort sem það er að mæta í leikhús eða bara kaupa sér bók,“ segir Lilja og bætir því við að framtaksins sé ærin þörf því þýska samfélagið skili sér mun hægar til baka í daglega lífið en það íslenska. „Hér var verið að afnema grímuskyldu í almenningssamgöngum í þarsíðustu viku,“ bætir ráðherra við.
Dagskráin var þétt í stuttri heimsókn og fundaði Lilja með Clemens Trautmann, forstjóra útgáfurisans Deutsche Grammophon. „Fyrirtækið hefur átt í mjög góðu og árangursríku sambandi við íslenskt tónlistarfólk á borð við Víking Heiðar Ólafsson, Hildi Guðnadóttur og Jóhann Jóhannsson heitinn. Trautmann hefur mikinn áhuga á því að taka þátt í ráðstefnu um framtíð tónlistar á Íslandi sem stefnt er að því að halda í haust,“ segir Lilja sem einnig hitti íslensku myndlistamennina Styrmi Örn Guðmundsson og Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur en hún dvelur nú á vegum Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar við vinnustofuna Künstlerhaus Bethanien í Berlín þar sem Styrmir átti viðdvöl árið á undan henni.
„Við sóttum líka ferðakaupstefnu þar sem verið var að kynna Ísland og það gekk svona líka rosalega vel. Hér eru ferðaþjónustufyrirtæki byrjuð að bóka ferðir til Íslands fyrir árið 2024 og áhuginn á að heimsækja landið er mjög mikill, ég hitti einmitt verkefnisstjóra ferðamála í orku- og efnahagsmálaráðuneytinu, Dieter Janecek, sem hefur mikinn áhuga á endurnýjanlegri orku. Sjálfbærni, orka, efnahagsmál og ferðaþjónusta eru í einu ráðuneyti hér og Þjóðverjar leggja gríðarlega áherslu á að færa sig í grænni orkugjafa, frá kolum og gasi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, að lokum, sem lauk heimsókn sinni til Berlínar í íslenska sendiherrabústaðnum í fyrradag eftir vel heppnaða för.