Styrkja greiningu á skipulagðri brotastarfsemi

Sigríður Björk Guðjónsdóttir á blaðamannafundi um fjölgun lögreglumanna.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir á blaðamannafundi um fjölgun lögreglumanna. Eggert Jóhannesson

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir að til þessa hafi mest verið kvartað undan málshraða og hversu fáir menntaðir lögreglumenn séu við störf á landsbyggðinni. Ríflega 11% aukning lögreglumanna á landinu sé viðbragð við því. Tilkynnt var í dag um að 80 stöðugildi bætast við löggæsluna í landinu.

Aukinn varnarbúnaður 

Eitt af því sem nefnt var á blaðamannafundi þar sem fjölgun lögreglumanna var kynnt var aukinn varnarbúnaður til handa lögreglu. Auk rafbyssa eru nú allir lögreglumenn í öryggisvesti. „Svo höfum við bætt þjálfun rannsóknarlögreglumanna í meðferð skotvopna,“ segir Sigríður Björk.

Hún segir að til að byrja með verði rafbyssur ekki tiltækar fyrir alla lögreglumenn. „Við byrjum með ákveðið úrtak og förum rólega. Þetta er nýtt og við þurfum að halda traustinu og taka samtal við samfélagið. Læra af því sem vel hefur verið gert annars staðar en einnig taka mið af því sem betur hefði mátt gera,“ segir Sigríður.

Hún segir að þetta verði fyrst og fremst fyrir lögreglumenn á vettvangi en ekki hjá sérsveitum. „Þetta er fyrir lögreglumenn sem hafa kylfur og úða. Svo bætist þetta við sem löggæslutæki,“ segir Sigríður Björk.

Hagnaðardrifin mál á borð héraðssaksóknara

Á fundinum var mikið rætt um átak gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Sigríður segir að öll þau mál séu hagnaðardrifin og fyrir vikið er ákæruhlutinn kominn á borð héraðssaksóknara.

„Við sjáum á framkvæmdinni að það liggur nær Héraðssaksóknara að ákæra í þeim málum en aftur á móti erum við þá óháðari í okkar rannsóknum með greiningartæki. Það er því ekki sami aðili sem er að velja verkefnin sem farið er fram með og eru á rannsóknarhliðinni. Okkar er hins vegar að styrkja greininguna,“ segir Sigríður Björk.

Telur hún að með þessu muni afköst embættisins í málaflokknum verða enn meiri en hingað til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka