Klappið, nýja greiðslukerfi Strætó, hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir greiðslukerfi á stærsta viðburði heims fyrir almenningssamgöngur, þegar kemur að rafrænum lausnum greiðslukerfa.
Var Klappið á meðal sjö tilnefndra greiðslukerfa og fékk sérstök verðlaun í flokki kerfa sem eru talin eiga mikið lof skilið (e. Highly Commended), að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Strætó.
Tilgangur verðlaunanna er að veita framúrskarandi lausnum á sviðinu viðurkenningu og veita rekstraraðilum og stofnunum almenningssamgangna og samstarfsaðilum þeirra athygli fyrir greiðslukerfi sem hefur verið hleypt af stokkunum á síðustu 2 árum. Veðlaunin voru veitt á viðburðinum Transport Ticketing Global í London fyrr í vikunni.
Viðurkenningin er sérlega ánægjuleg því dómendur eru fremstu sérfræðingar heims á þessu sviði og aldrei hafa verið sendar inn fleiri tilnefningar, er haft eftir Daða Áslaugarsyni, yfirmanni upplýsingatæknimála hjá Strætó í fréttatilkynningu.
„Hún sýnir okkur að við erum á réttri leið og hvetur okkur til að halda ótrauð áfram á þeirri löngu vegferð að gera greiðslukerfi Strætó að frábærri lausn fyrir bæði farþega og alla þá sem vinna við að gera almenningssamgöngur að góðum valkosti fyrir fólk á ferðinni.“
Þá er haft eftir honum að spennandi nýjungar séu í farvatninu, meðal annars sá möguleiki að greiða beint með snertilausu greiðslukorti.
Klappinu var hleypt af stokkunum 16. nóvember 2021 og gátu þá viðskiptavinir skannað miðana sína með appi, Klapp-korti eða pappakorti um borð í vögnum.
Innleiðing kerfisins hér á landi hefur ekki gengið snurðulaust fyrir sig. Var fjallað um erfiðleika við innleiðingu þess á ársfundi byggðasamlagsins Strætó, Sorpu og Slökkviliðsins í nóvember á síðasta ári.